Áfram réttað yfir Fritzl

Fritzl leiddur inn í réttarsalinn í morgun
Fritzl leiddur inn í réttarsalinn í morgun Reuters

Réttarhöldin yfir Josef Fritzl, Austurríkismanninum sem er ákærður fyrir glæpi gegn dóttur sinni og börnum sem hann eignaðist með henni er hann hélt henni fanginni í 24 ár, hófust á ný í morgun í bænum St Poelten.

Fritzl játaði fyrir rétti í gær að hafa nauðgað dóttur sinni og haldið henni fanginni í kjallaraprísund í 24 ár en kvaðst vera saklaus af ákæru um manndráp.

Fritzl játaði á sig nauðganir, sifjaspell, alvarlegar árásir og frelsissviptingu og á yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsisdóm fyrir þær ákærur. Hann neitaði hins vegar manndrápsákærunni, sem varðar lífstíðarfangelsi, og ákæru um þrælahald.

Í gær var byrjað að sýna myndband með dóttur Fritzl, Elisabeth, þar sem hún lýsir vistinni í kjallaranum og misþyrmingum föðurins. Verður haldið áfram að sýna myndskeiðið í dag en búist er við því að niðurstaða í málinu liggi fyrir í fyrramálið, að sögn fréttamanns BBC sem fylgist með réttarhöldunum í St Poelten.

Dóttir Fritzl, Elisabeth, ól sjö börn í kjallaranum en eitt þeirra dó skömmu eftir fæðingu. Fritzl var ákærður fyrir að hafa orðið barninu að bana með því að neita að koma því undir læknishendi þótt dóttir hans grátbæði hann um það vegna þess að barnið átti erfitt með öndun. Fritzl segir að barnið hafi fæðst andvana.

Nokkrir lögspekingar í Austurríki telja að erfitt geti verið að sanna manndrápsákæruna en líklegra sé að hann verði dæmdur sekur um þrælahald sem varðar allt að 20 ára fangelsi. Fangar í Austurríki geta fengið reynslulausn eftir að þeir hafa afplánað helming dómsins að því tilskildu að þeir teljist ekki líklegir til að endurtaka glæpinn.

Aðalsaksóknarinn Christiane Burkhauser sagði fyrir réttinum að Fritzl hefði ekki sýnt „nein iðrunarmerki“. „Josef Fritzl kom fram við dóttur sína sem eign sína, gerði hana algerlega háða sér,“ sagði saksóknarinn. „Hann notaði hana eins og leikfang.“

Fritzl bar fyrir sig „mjög erfiða æsku“. „Mamma mín vildi mig ekki,“ sagði hann. „Ég var barinn.“

Réttarhöldin verða að mestu fyrir luktum dyrum til að leyna nýjum nöfnum Elisabethar og barna hennar og vernda einkalíf þeirra.

Josef Fritzl við komuna í réttarsalinn í morgun
Josef Fritzl við komuna í réttarsalinn í morgun Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert