Farþegaflugvélar Air France flugfélagsins með 231 innanborðs er saknað úti fyrir strönd Brasilíu en flugvélin var á flugi yfir Atlantshafi er fjarskiptasamband rofnaði og hún hvarf af ratsjám.
Samkvæmt upplýsingum talsmanns Charles de Gaulle alþjóðaflugvallarins í París var vélin, sem er af gerðinni Airbus A330, á leið frá Rio de Janeiro til Parísar. Segir hann hugsanlegt að einungis sé um bilun í fjarskiptabúnaði að ræða en að slíkt sé mjög sjaldgæft. Þá hafi flugvélin ekki lent í París á tilsettum tíma. Málið valdi því miklum áhyggjum
Neyðarmóttaka hefur verið sett upp á Charles de Gaulle fyrir aðstandendur þeirra sem eru um borð í vélinni. Dominique de Bussereau, aðstoðarsamgönguráðherra Frakklands, var væntanlegur á flugvöllinn.
Flugvélin var með 216 farþega og 15 manna áhöfn innanborðs. Samband við vélina rofnaði klukkan 6 að íslenskum tíma en hún átti að lenda á Charles de Gaulle flugvelli klukkan 9:10.