Varð líklega fyrir eldingu

Flugvél sömu gerðar og Airbus A330, sem hvarf yfir Atlantshafi …
Flugvél sömu gerðar og Airbus A330, sem hvarf yfir Atlantshafi í morgun. Reuters

Franska flugfélagið Air France segir, að líklega hafi eldingu lostið niður í farþegaflugvélina, sem hvarf af ratsjám yfir Atlantshafi snemma í morgun með 228 manns innanborðs.

Sjálfvirk tilkynning barst frá flugvélinni klukkan 2:10 að íslenskum tíma um bilun í rafkerfi. Skömmu áður hafði flugstjóri vélarinnar sagt að mikil ókyrrð væri í lofti. 

Flugvélin fór frá Rio de Janiero í Brasilíu klukkan 22 í gærkvöldi að íslenskum tíma og átti að lenda á Charles de Gaulle flugvelli í París klukkan 9:10 í morgun. Fjarskiptasamband við vélina rofnaði klukkan 1:30 í nótt. 

Brasilíski flugherinn hefur sent leitarflugvélar og er leitað frá eyjunni Fernando de Noronha.

Að sögn Air France voru 126 karlmenn, 82 konur, sjö börn og eitt ungbarn um borð í vélinni. 12 manna áhöfn var um borð, þrír flugmenn og 9 flugfreyjur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert