Málefni innflytjenda á dagskrá

Innanríkisráðherra Bretlands segir að það sé rangt að Verkamannaflokkurinn vilji ekki ræða innflytjendamál í kjölfar axarskafts forsætisráðherrans í gær. Það vakti mikla athygli í gær þegar Gordon Brown kallaði stuðningskonu flokksins, sem hann ræddi m.a. við um málefni innflytjenda, fordómafulla.

Í kvöld munu fara fram síðustu sjónvarpskappræðurnar fyrir komandi kosningar. Þar mun Brown mun etja kappi við Nick Clegg, leiðtoga Frjálslynda demókrataflokksins, og David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins, í Birmingham.

Alan Johnson, innanríkisráðherra Bretlands, segir ekkert því til fyrirstöðu að ræða málefni innflytjenda. Hann segir að Brown hafi verið undir gríðarlegri pressu í gær og því gert skelfileg mistök.

Brown hefur beðist afsökunar á þessu glappaskoti.

Fréttaskýrendur telja að Brown muni setja allt í sölurnar í kvöld. Hann sé ekki aðeins að berjast fyrir sínu eigin pólitíska lífi heldur einnig fyrir framtíð Verkamannaflokksins. Talið er að klúðrið geti haft þau áhrif að fólk nenni ekki að mæta á kjörstað og taka þátt í kosningunum.

Johnson segir að ellilífeyrisþeginn Gillian Duffy hafi ekki verið fordómafull með því að vilja ræða um innflytjendur frá Austur-Evrópu. Hann segist vera ánægður með að Brown hafi nú tekið að skýrt fram.

„Enginn getur sagt að þetta hafi ekki verið skaðlegt. Ég held að við verðum að líta á það hvernig Gordon svaraði. Fólk mun sýna því skilning að stundum segir maður eitthvað sem maður vildi óska að maður hefði ekki sagt,“ segir innanríkisráðherra Alan Johnson í samtali við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert