Segja netaðgang mannréttindi

Skilgreina ætti netaðgang sem grundvallarmannréttindi og hluta tjáningarfrelsis. Þetta er mat OSCE, sem er Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og kemur fram í skýrslu stofnunarinnar, sem gefin var út í dag og kynnt var í Vínarborg.

„Allir ættu að eiga rétt á að taka þátt í upplýsingasamfélaginu og ríki heims bera ábyrgð gagnvart þegnum sínum að tryggja aðgang að netinu,“ segir í skýrslunni.

„Sumar ríkisstjórnir skilgreina nú þegar netaðgang sem mannréttindi. Þetta skiptir miklu máli varðandi frelsi fjölmiðlanna,“ sagði fjölmiðlafulltrúi OSCE, Dunja Mijatovic og nefndi í því sambandi Finnland og Eistland.

Á síðasta ári var réttur til netaðgangs lögleiddur í Finnlandi og Noregur hefur einnig tekið skref í þessa átt.

Nokkur ríki hafa sett reglugerðir sem leyfa yfirvöldum að takmarka aðgang að netinu í neyðartilvikum, til að vernda almannaheill og þjóðaröryggi.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert