Samaras mistókst að mynda stjórn

Antonis Samaras, leiðtogi Nýs lýðræðis.
Antonis Samaras, leiðtogi Nýs lýðræðis. AFP

Antonis Samars, leiðtoga Nýs lýðræðis, hefur mistekist að mynda nýja ríkistjórn í Grikklandi. Það verður nú verkefni Syriza, sem er róttækur vinstriflokkur, að taka við keflinu og hefja viðræður um myndun nýrrar samteypustjórnar.

„Ég reyndi allt sem ég gat til að komast að niðurstöðu en það var hins vegar ekki mögulegt,“ sagði Samaras í sjónvarpsávarpi eftir að hafa fundað með leiðtogum annarra stjórnmálaflokka.

„Ég hef upplýst [forsetann Carolos Papoulias] og skilað stjórnarmyndunarumboðinu,“ segir Samaras.

Nýtt lýðræði fékk flest atkvæði í þingkosningunum um sl. helgi. Fulltrúar Syriza, sem hafnaði í öðru sæti, vildu ekki samþykkja að setjast í stjórn með Nýju lýðræði sem og Lýðræðislega vinstrihreyfingin. Kommúnistaflokkurinn og þjóðernisflokkurinn Sjálfstæðir Grikkir neituðu að ræða við Samaras.

Pasok, sem hafnaði í þriðja sæti, var reiðubúinn til samstarfs með því skilyrði að vinstrimenn tækju einnig þátt í í stjórninni.

Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza, mun mæta á fund Papoulias kl. 11 í fyrramálið. Þar mun Tsipras hljóta stjórnarmyndunarumboðið og fá þrjá daga til að mynda nýja stjórn.

Tsipras segist vilja mynda samsteypustjórn á vinstrivængnum sem muni hafna þeim „villimannslegu“ aðgerðum sem koma fram í skilmálum ESB og AGS vegna neyðarláns til grískra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert