Vinstrimenn reyna að mynda stjórn

Alexis Tsipras, leiðtogi vinstri flokksins Syriza í Grikklandi.
Alexis Tsipras, leiðtogi vinstri flokksins Syriza í Grikklandi. AFP

Alexis Tsipras, leiðtogi vinstriflokksins Syriza í Grikklandi, hefur fengið umboð forseta landsins til stjórnmyndunarviðræðna, eftir að leiðtoga Nýs lýðræðis mistókst að mynda stjórn eftir þingkosningarnar um helgina.

Afar flókin staða er uppi í grískum stjórnmálum eftir þingkosningarnar. Tsipras segist stefna að því að setja saman ríkisstjórn sem muni hafna kröfum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurskurð í landinu sem skilyrði fyrir neyðarláni. Fram kemur á vef BBC að stjórnmálaskýrendur telji ólíklegt að Tsipras muni takast ætlunarverk sitt.

Kjósendur í Grikklandi, Frakklandi og á Ítalíu hafa allir hallast að flokkum sem eru andsnúnir niðurskurðaraðgerðum, í kosningum undanfarinnar viku. Í kjölfar kosninganna varð niðursveifla á mörkuðum í Evrópu en þeir hafa að mestu jafnað sig að nýju, að Kauphöllinni í Aþenu undanskilinni.

Fráfarandi ríkisstjórn Grikklands samþykkti að ráðast í umfangsmiklar sparnaðar- og niðurskurðaraðgerðir og skattahækkanir, gegn því að fá greitt út alls 240 milljarða evru lán frá ESB og AGS. Vinstriflokkur Tsipras vill hafna þessum aðgerðum og fær nú þrjá daga til að mynda ríkisstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert