Grikkir á útleið úr evru-samstarfinu?

Gríska leikkonan Ino Menegaki, heldur á ólympíueldinum í Ólympíu í …
Gríska leikkonan Ino Menegaki, heldur á ólympíueldinum í Ólympíu í morgun AFP

Ekki er hægt að útiloka að Grikkland verði neytt til þess að yfirgefa evru-svæðið ef stjórnvöld standa ekki við það samkomulag sem gert var við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, segir efnahagsráðgjafi grísku ríkisstjórnarinnar.

„Ef við neitum öllu þá yfirgefum við evru-svæðið,“ segir Gikas Hardouvelis, efnahagsráðgjafi fráfarandi forsætisráðherra, Lucas Papademos.

Vilja hafna samkomulaginu

Kjósendur höfnuðu þeim aðhaldsaðgerðum sem boðaðar voru í Grikklandi í þingkosningunum síðastliðinn sunnudag en flokkar sem eru andsnúnir samkomulaginu juku fylgi sitt mikið á meðan flokkarnir sem styðja samkomulagið misstu fylgi.

Er það nú í höndum vinstri flokksins Syriza að reyna að mynda ríkisstjórn í Grikklandi.

Leiðtogi Syriza, Alexis Tsipras, kvaðst í gær stefna að því að mynda nýja samsteypustjórn sem myndi hafna sparnaðaraðgerðum sem Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn settu sem skilyrði fyrir neyðarlánum til að afstýra greiðsluþroti gríska ríkisins. Tsipras sagði í sjónvarpsávarpi að grískir kjósendur hefðu „augljóslega ógilt lánasamninginn“.

Tsipras er 37 ára að aldri og yngsti flokksleiðtoginn í Grikklandi. Flokkur hans fékk næstmest fylgi í þingkosningunum á sunnudaginn var og fékk umboð til stjórnarmyndunar eftir að leiðtoga stærsta flokksins, Nýs lýðræðis, tókst ekki að mynda nýja stjórn.

Tsipras hvatti Nýtt lýðræði og jafnaðarmannaflokkinn PASOK, sem hafa skipst á um að stjórna landinu síðustu áratugi, að falla frá stuðningi sínum við lánasamninginn. „Borgararnir hafa hafnað villimennskunni í neyðarlánasamningnum með miklum meirihluta atkvæða,“ sagði hann. „Þeir bundu enda á áform um 77 nýjar sparnaðaraðgerðir í júní, áform um að segja upp 150.000 opinberum starfsmönnum, og viðbótaraðgerðir að andvirði 11,5 milljarða evra [1.800 milljarða króna].“

Gríska ríkið færi í þrot og gæti ekki greitt laun

Hardouvelis segir að nú séu viðbrögð leiðtoga ríkja í Evrópu ljós og það sé ljóst af orðum þeirra að Grikkir stefni hratt og fast að því að yfirgefa evruna. Hann segist ekki sjá neina ástæðu fyrir því að ESB og AGS láni Grikkjum peninga ef ríkið standi ekki við samkomulagið. Það þýði að ríkið geti ekki greitt laun né lífeyrisgreiðslur þar sem engir peningar séu til í ríkissjóði. 

„Einhverjir verða að lána okkur peninga að öðrum kosti muni landið fara í þrot og landamærum þess lokað. Það er þetta sem við erum að reyna að forðast.“

Hagfræðingar velta nú fyrir sér þeim möguleikum sem blasi við Grikklandi. Ef Grikklandi yfirgefi evru-svæðið geti haft alvarleg áhrif á framtíð ESB, einkum og sér í lagi Þýskaland.

Gengisfelling, verðbólguþrýstingur og fjölda gjaldþrot blasa við

Gillian Edgeworth, sérfræðingur hjá UniCredit, segir að þeir sem hafi lánað Grikkjum hljóti að vera í viðbragðsstöðu og vinna þurfi að því að finna lausn á vanda Grikklands. 

Ef Grikkir yfirgefi evrusvæðið verði þeir að búa sig undir mikla gengisfellingu, aukna verðbólgu og verulegan samdrátt vergrar landsframleiðslu. Þeir verði að taka upp gjaldeyrishöft og gjaldþrot banka. Eins muni fjölmörg einkafyrirtæki fara í þrot. Eins sé ekki hægt að útiloka áhrif gjaldþrota grískra banka á aðra banka á evru-svæðinu. Grikklandsáhrifin muni hafa áhrif á hagvöxt í allri álfunni. 

Virðast hagfræðingar sem AFP fréttastofan ræddi við vera sammála um að ef Grikkir yfirgefa evru-samstarfið þýði það að efnahagsástandið í landinu muni versna til muna eins muni það valda titringi innan ESB þar sem evru-svæðið berst við lítinn hagvöxt. 

Ef óróinn leiðir til þess að stærri ríki á evru-svæðinu þurfi á aðstoð ESB og AGS að halda er þeirri spurningu ósvarað hvort stofnunum tekst að veita þá aðstoð. 

Rætt er um að ekki takist að mynda starfhæfa stjórn í Grikklandi og því þurfi að kjósa á ný í næsta mánuði. Niðurstaðan í þeim kosningum gæti orðið önnur en í kosningunum á sunnudag ef almennir borgarar fá ekki greidd laun né bætur vegna bágrar stöðu ríkissjóðs sem ekki geti greitt laun eða bætur nema hann fái lán frá ESB og AGS. Ef hins vegar niðurstaðan úr þeim kosningum verður hin sama og á sunnudag megi vænta þess að leiðtogar evru-svæðisins fari fram á að Grikkir yfirgefi evru-svæðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert