Fóru í legígræðslu

Tvær sænskar konur fengu nýtt leg ígrætt um helgina. Í báðum tilvikum eru það mæður þeirra sem gefa þeim leg sitt og er það í fyrsta skipti sem dætur fá leg frá mæðrum sínum.

Móðurlífsígræðslur eru nýjar af nálinni en sú fyrsta sem tókst var gerð í Tyrklandi í fyrra. Vonast er til þess að ungu konurnar geti eignast börn eftir aðgerðina, samkvæmt tilkynningu frá Háskólanum í Gautaborg.

Þar kemur fram að önnur konan hafi farið í legnám vegna krabbameins í leghálsi fyrir einhverju síðan. Hin konan fæddist án legs. Konurnar eru báðar á þrítugsaldri, segir í tilkynningu frá háskólanum og Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu.

Mats Brännström prófessor segir að yfir tíu skurðlæknar hafi tekið þátt í aðgerðunum tveimur. Báðum konunum heilsast vel en þær eru hins vegar þreyttar eftir aðgerðina. Mæður þeirra eru hins vegar komnar á fætur og geta farið heim af sjúkrahúsinu innan nokkurra daga.

Frétt Dagens Næringsliv

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka