Pistorius leiddur fyrir dómara

Oscar Pistorius á leið í varðhald í gær
Oscar Pistorius á leið í varðhald í gær AFP

Suðurafríski hlauparinn Oscar Pistorius var leiddur fyrir dómara fyrir skömmu í borginni Pretoríu í S-Afríku. Þar verður hann ákærður formlega fyrir morðið á unnustu sinni, fyrirsætunni Reevu Steenkamp.

Hlauparinn eyddi nóttinni í fangaklefa en dómari mun úrskurða hvort hann verður látinn laus gegn tryggingu eða settur í gæsluvarðhald.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins var Pistorius ekið að dómshúsinu í lögreglubifreið og huldi hann andlitið fyrir kastljósi fjölmiðla með jakka og spjaldtölvu.

Pistorius er 26 ára og varð fyrsti fótalausi maðurinn til að keppa á Ólympíuleikum. Hann hefur hlaupið á gervifótum frá stoðtækjaframleiðandanum Össuri og keppti á Ólympíuleikunum í London á liðnu ári.

Fréttir um atburðinn í Pretoríu voru mjög óljósar í gær. Suðurafrískir fjölmiðlar sögðu að Pistorius hefði haldið að innbrotsþjófur væri á ferð í íbúðinni og hleypt af byssu. Talsmaður lögreglunnar neitaði þessu og sagði að áður en konan fannst látin hefðu „komið fram ásakanir um heimiliserjur í húsi sakborningsins“. Lögreglan hyggst leggjast gegn því að sakborningurinn verði látinn laus gegn tryggingu.

Talsmaður lögreglunnar sagði að konan hefði orðið fyrir fjórum byssuskotum, í höfuðið og aðra höndina. Beitt hefði verið skammbyssu sem fannst í íbúðinni. „Herra Pistorius hafði tilskilin leyfi fyrir henni,“ hafði fréttaveitan AFP eftir talsmanni lögreglunnar.

Málið er reiðarslag fyrir aðdáendur Pistorius sem er meðal dáðustu íþróttamanna Suður-Afríku og einn af þekktustu íþróttamönnum heimsins. Pistorius fæddist án kálfabeina og var ekki orðinn eins árs þegar báðir fæturnir voru teknir af honum. Hann þurfti lengi að berjast fyrir því að fá að keppa á stórmótum öðrum en þeim sem ætluð eru fyrir fatlaða. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið (IAAF) samþykkti loks árið 2008 að heimila honum að keppa á stórmótunum. Hann keppti í 400 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í London á liðnu ári og komst þá í undanúrslit. Hann var einnig í 4x400 metra boðhlaupssveit Suður-Afríku sem komst í úrslitin. Pistorius keppti einnig á Ólympíumóti fatlaðra í London, fékk þá tvenn gullverðlaun og ein silfurverðlaun.

Heimili Pistorius
Heimili Pistorius AFP TV
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert