Pistorius laus úr fangelsi

Pistorius í dómsal árið 2014.
Pistorius í dómsal árið 2014. AFP/Gianluigi Guercia

Suðurafríska ólympíuhlauparanum fyrrverandi, Oscar Pistorius, hefur verið veitt reynslulausn úr fangelsi og er hann kominn til síns heima, næstum 11 árum eftir að hann skaut kærustu sína, Reeva Steenkamp, til bana.

Eftir að hafa afplánað næstum helming dómsins sem hann hlaut yfirgaf Pistorius, sem er 37 ára, í morgun Atteridgeville-fangelsið sem er í útjaðri höfuðborgarinnar Pretoria.

Pistorius á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012.
Pistorius á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012. AFP/Adrian Dennis

Pistorius drap Steenkamp, 29 ára fyrirsætu, snemma á Valentínusardag árið 2013 eftir að hafa skotið fjórum sinnum í gegnum baðherbergishurð á heimili sínu í Pretoria.

Hann var fundinn sekur um morð og dæmdur í 13 ára fangelsi árið 2017 eftir löng réttarhöld og þó nokkrar áfrýjanir.

Pistorius neitaði sök og sagðist hafa skotið Steenkamp vegna þess að hann hélt að hún væri innbrotsþjófur. 

Oscar Pistorius og Reeva Steenkamp í nóvember árið 2012.
Oscar Pistorius og Reeva Steenkamp í nóvember árið 2012. AFP/Lucky Nxumalo

Móðir Steenkamp, June, segir í yfirlýsingu að hún sé sú sem „afpláni lífstíðardóm” þegar kemur að því að syrgja dóttur sína.

Pistorius hefur aftur á móti verið meinað að tjá sig við fjölmiðla. Eru það skilmálar sem tengjast reynslulausn hans. 

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að greint var frá því að Pistorius væri kominn heim til sín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert