Vitnaleiðslur standa nú yfir í máli suður-afríska hlauparans Oscars Pistorius, þriðja daginn í röð. Hann situr niðurlútur og hefur nokkrum sinnum brotnaði niður, ættingjar hans og vinir eru í réttarsal og enn liggur ekki fyrir hvort hann verði látinn laus gegn tryggingu.
Pistorius er ákærður fyrir að hafa myrt unnustu sína, fyrirsætuna Reevu Steenkamp þann 14. febrúar. Hann segist saklaus og segist hafa talið að hún væri innbrotsþjófur á baðherbergi húss þeirra.
Saksóknari segir helst á verjanda Pistorius að skilja að skjólstæðingur hans vilji helst „halda áfram með líf sitt eins og ekkert hafi í skorist“ og að hann sýni ekki minnstu merki um að hann átti sig á alvarleika þess sem hefur gerst. Hann segir athafnir Pistorius gefa til kynna að þar fari maður sem er tilbúinn og viljugur til að myrða. Ekki sé óhætt að láta hann lausan gegn tryggingu, hann eigi hús á Ítalíu og gæti vel farið þangað.
Við vitnaleiðslurnar í morgun beindist kastljósið að lögreglumanninum Hilton Botha, sem fer með rannsókn málsins, en hann sætir nú ákæru fyrir sjö morðtilraunir. Þetta þykir veikja málflutning ákæruvaldsins verulega, en einnig hefur komið í ljós að Botha skeytti lítt um vettvang hins meinta glæps og klæddist ekki hlífðarbúningi er hann kom á heimili Pistorius og gæti því hafa spillt sönnunargögnum.
Að auki hefur komið í ljós að lögreglu yfirsást byssukúla sem hafði hafnað í salerni og fannst hún ekki fyrr en fjórum dögum eftir að lögregla kom fyrst á vettvang.
Íþróttavöruframleiðandinn Nike tilkynnti í dag að það myndi gera hlé á öllu samstarfi við Pistorius á meðan á málarekstrinum stendur, en hann hefur auðgast gríðarlega vegna auglýsinga fyrir fyrirtækið. Það sama tilkynnti sólgleraugnaframleiðandinn Oakley og í gær greindi franska snyrtivörufyrirtækið Clarins frá því að það myndi hætta að birta auglýsingar með hlauparanum.