Fjölskylda Oscars Pistorius á samtals 55 skotvopn. Faðir afreksíþróttamannsins, Henke Pistorius, lét hafa eftir sér að sonur hans yrði að eiga byssur vegna þess að ríkisstjórnin hefði brugðist í að veita hvítu fólki vörn gegn glæpum. Ummælin féllu í grýttan jarðveg innan fjölskyldunnar sem sá sig knúna til að senda út yfirlýsingu í kjölfarið.
Oscar Pistorius er sem kunnugt er ákærður fyrir að hafa myrt kærustu sína, Reevu Steenkamp, en sjálfur segir hann að um voðaskot hafi verið að ræða þar sem hann hafi talið sig vera að skjóta á innbrotsþjóf.
Hvítir „illa varðir“ af stjórnvöldum
Í viðtali sem breska blaðið Telegraph birti á sunnudag kennir faðir hans stjórnvöldum um byssumenninguna í Suður-Afríku. Fjölskylda hans verði að eiga byssur til að verja sig gegn glæpamönnum. Suðurafríska blaðið Beeld hefur greint frá því að fjölskyldan eigi 55 byssur.
„Sumar byssurnar eru ætlaðar til veiða og aðrar til að vernda okkur, skammbyssurnar. Það er stjórnvöldum að kenna, lítið bara á glæpatíðnina gegn hvítum, við erum illa varin í þessu landi,“ er haft eftir Henke Pistorius í Telegraph.
AFP birti í kjölfarið í dag yfirlýsingu frá fjölskyldu hlauparans þar sem segir að athugasemdir föður hans séu ekki lýsandi fyrir afstöðu Oscars sjálfs eða annarra fjölskyldumeðlima. „Pistorius-fjölskyldan á skotvopn í þeim tilgangi einum að stunda sportveiði,“ segir í yfirlýsingunni.
Víggirt öryggishverfi
Mál Oscars Pistorius hefur beint sviðsljósinu að ástandinu í Suður-Afríku þar sem glæpatíðni er hvað hæst í heiminum. Morðum hefur þó fækkað í landinu úr 64,9 á hverja 100 þúsund íbúa árið 1995, árið eftir að Nelson Mandela varð forseti, í 31,8 morð á hverja 100 þúsund íbúa árið 2010. Í helmingi tilfella eru byssur morðvopnið.
Hvítt fólk í Suður-Afríku bjó flest í afar vernduðu umhverfi á meðan aðskilnaðarstefnan var enn við lýði, að sögn fréttaritara BBC í landinu. Þungvopnuð herlögregla sinnti þá eftirliti í „hvítum hverfum“ og var glæpatíðni þar lág.
Eftir að aðskilnaðarstefnunni var hætt árið 1994 var lögreglan að hluta til færð inn í „svört hverfi“ sem varð til þess að hvítu fólki fannst það berskjaldað. Fyrir vikið hafa risið víggirt „öryggisþorp“ þar sem býr fyrst og fremst efnað fólk sem ræður sér öryggisverði, s.s. Silver Woods-hverfið þar sem Oscar Pistorius býr.
Hættan er hins vegar ekki aðeins utanaðkomandi, því heimilisofbeldi er alveg jafnalgengt í hinum afgirtu samfélögum.