Suður-afríski hlauparinn Oscar Pistorius, sem er ákærður fyrir morð á unnustu sinni, hefur fengið heimild til þess að ferðast eftir að breyting var gerð á skilyrðum lausnar hans gegn tryggingu.
Dómari í Pretoria segir að hlauparinn megi ferðast úr landi til þess að keppa svo lengi sem hann uppfylli þau skilyrði sem sett eru. Eins má hann snúa aftur heim til sín í Pretoria þar sem hann skaut Reevu Steenkamp til bana. Hann segir að um voðaskot hafi verið að ræða en saksóknari er ekki á sama máli og telur að um morð að yfirlögðu ráði sé að ræða.
Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins hafnaði dómarinn hins vegar beiðni Pistorius um að hann þyrfti ekki að hitta skilorðsfulltrúa og að hann gæti sleppt því að mæta í lyfja- og áfengismælingu reglulega. Pistorius var sjálfur ekki viðstaddur uppkvaðningu úrskurðarins í dag.