Herða lög um fóstureyðingar

Frá Kansas.
Frá Kansas. AFP

Enn eitt ríkið í Bandaríkjunum hefur samþykkt lög sem takmarka rétt kvenna til fóstureyðinga. Lögin sem þingmenn í Kansas hafa nú sent ríkisstjóranum til undirritunar takmarka einnig kynlífsfræðslu í skólum.

Í frétt Reuters-fréttastofunnar segir að þingið hafi samþykkt lögin með 90 atkvæðum gegn 30 seint í gærkvöldi.

Ríkisstjórinn Sam Brownback, repúblikani sem er yfirlýstur andstæðingur fóstureyðinga, er talinn líklegur til að skrifa hiklaust undir lögin.

Andstæðingar laganna segja að í þeim megi finna fjölmargar takmarkanir á rétti kvenna til fóstureyðinga.

Stuðningsmenn laganna segja hins vegar að lögin ítreki aðeins þau viðmið sem séu þegar viðhöfð í ríkinu og eigi að hjálpa konum að taka „upplýstar ákvarðanir“.

Undanfarin tvö ár hafa mörg ríki gert breytingar á lögum um fóstureyðingar. Þeirra á meðal eru Norður-Dakóta og Arkansas en þar voru breytingar á lögunum samþykktar fyrir fáum vikum. Þykja þær breytingar ganga þvert á niðurstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna frá árinu 1973 í máli sem kallaðist Wade vs. Roe. 

Samkvæmt Kansas-lögunum verður bannað að setja opinbert fé í fóstureyðingar. Þá munu stofur sem framkvæma slíkar aðgerðir ekki njóta skattafríðinda eða afslátta.

Þá banna lögin skólum að leyfa samtökum á borð við Planned Parenthood að bjóða, styrkja eða veita námsefni um m.a. kynhneigð og kynsjúkdóma.

Í frumvarpinu er það ítrekað að líf kvikni við getnað en það bannar þó ekki fóstureyðingar á þessu frumstigi fósturs.

Frétt mbl.is: Aðgangur að neyðarpillu skal óheftur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert