Limlesting bíður 30 milljóna stúlkna

98% kvenna á aldrinum 15-49 ára í Sómalíu hafa verið …
98% kvenna á aldrinum 15-49 ára í Sómalíu hafa verið umskornar AFP

Yfir 125 milljónir kvenna og stúlkna sem eru á lífi í dag hafa verið umskornar. Yfir þrjátíu milljónir stúlkna eiga á hættu að vera sendar í slíka limlestingu næsta áratuginn, samkvæmt nýjum upplýsingum frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr slíkum aðgerðum þá þykir í einhverjum löndum sjálfsagt mál að ungar stúlkur séu umskornar. Þetta kemur fram í skýrslu UNICEF þar sem fjallað er um tölur um slíkar aðgerðir í 29 ríkjum Afríku og Mið-Austurlöndum undanfarin tuttugu ár.

Umskurður (Female circumcision eða Famale Genital Mutilation, skammstafað: FGM) er skurðaðgerð á kynfærum kvenna, oftast við afar frumstæðar aðstæður. Umskurðurinn er mismunandi eftir siðvenjum í hverju héraði. Aðgerðin getur falist í því að skera burt snípinn. Harkalegasta aðgerðin, „kynfæralokun““ felst í því að skera burt snípinn, ytri skapabarmana og stærstan hluta innri skapabarmanna. Kynfæri stúlku eru saumuð saman eftir slíka aðgerð og aðeins skilið eftir örlítið gat fyrir þvag og tíðablóð. Þegar stúlkan er gefin opnar eiginmaðurinn kynfæri hennar með eggvopni.

Afleiðingin af því að skera snípinn frá kynfærunum er sú að komið er í veg fyrir að konan njóti kynlífs til fullnustu. Eftirköst umskurðar og kynfæralokunar geta verið bráðalost, sýkingar, skemmdir í þvagrásinni, örmyndun, stífkrampi, blöðrubólga, blóðeitrun, HIV-smit og lifrarbólga B. Aðgerðin getur orsakað langvarandi og síendurteknar sýkingar í þvagrásinni og leggöngunum, ófrjósemi, æxla- og kýlamyndanir, kvalafull taugaæxli, vaxandi erfiðleika við að hafa þvaglát, tíðaverki, uppsöfnun tíðablóðs í kviðarholinu, kyndeyfð, þunglyndi og dauða.

Umskurður á sér allt að 4 þúsund ára sögu. Stúlkur eru yfirleitt umskornar á aldrinum 4 til 12 ára, þó sumar séu umskornar yngri. Umskurður er m.a. talin minnka líkur á „ótryggð“ eiginkvenna, en stúlkur eru oft gefnar körlum eftir umskurð.

Slíkar aðgerðir eru gerðar meðal fólks með ólíkar trúarskoðanir. Má þar nefna kristna, múslíma og fylgjendur ákveðinna afrískra trúarbragða.

Umskurður er algengastur í Sómalíu þar sem 98% kvenna á aldrinum 15-49 ára hafa verið umskorin, 96% kvenna í Nýju-Gíneu, 93% kvenna í Djíbútíog 91% í Egyptalandi.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert