80% stúlknanna limlestar

Salsa Djafar ber gyllta kórónu skreytta borðum og er klædd fjólubláum kjól til að marka stóran áfanga; í dag verður hún umskorin. Salsa er 18 mánaða gömul og öskur fylla húsið þegar andalæknirinn leggur hvít klæði yfir sig og stúlkuna og sker af kynfærum hennar.

Læknirinn svokallaði notar hníf til að fjarlægja hettuna yfir sníp ungbarnsins. Að verkinu loknu stingur hún hnífnum í sítrónu undir vökulum augum ættingja barnsins. Salsa hefur nú verið hreinsuð af meintum syndum og er formlega múslimi.

„Það er erfitt að horfa á hana gráta en þetta er hefðin,“ segir faðir hennar Arjun Djafar, 23 ára verkamaður.

Umskurður kvenna, eða kynfæralimlesting eins og verknaðurinn er kallaður á Vesturlöndum, hefur verið stundaður í margar kynslóðir á Indónesíu. Landið er fjölmennasta ríkið þar sem meirihluti íbúa er múslimar og kynfæralimlestingar eru af mörgum álitnar manndómsvígsla.

Sameinuðu þjóðirnar fordæma gjörninginn og stjórnvöld freistuðu þess eitt sinn að banna hann en andstaða frá trúaryfirvöldum og víðtækur stuðningur við limlestingarnar hafa orðið þess valdandi að ómögulegt hefur reynst að koma í veg fyrir þær.

Kynfæralimlestingarnar eru hvergi tíðari en í Gorontalo, íhaldssömu svæði á aðaleyjunni Sulawesi, þar sem athöfninni fylgja ýmsir aðrir helgisiðir og hátíðarhöld.

Samkvæmt athugunum stjórnvalda hafa 80% stúlkna í Gorontalo 11 ára og yngri verið beittar kynfæralimlestingum. Á landsvísu er hlutfallið 50%.

Salsa Djafar öskrar á meðan skorið er af kynfærum hennar. …
Salsa Djafar öskrar á meðan skorið er af kynfærum hennar. Hún er 18 mánaða gömul. AFP

Skylda

Þrátt fyrir sársaukann sem gjörningurinn veldur og vaxandi andstöðu innanlands og utan, horfa íbúar Gorontalo, sem flestir eru fátækir hrísgrjónabændur, til limlestinganna sem skyldu.

Andalæknirinn Khadijah Ibrahim, sem erfði starfið frá móður sinni, segir „óskornar“ stúlkur í hættu á að þróa með sér „andleg vandamál og fatlanir“. Aðrir á svæðinu segja limlestinguna koma í veg fyrir lauslæti þegar stúlkurnar eldist og þá trúa margir því að bænir óskorinna kvenna falli á dauf eyru.

Því fer þó fjarri að kynfæralimlestingar séu aðeins stundaðar á strjálbýlum svæðum. Í Djakarta eru stúlkur einnig „umskornar“ en þar er um að ræða mildari útgáfu gjörningsins, þar sem látið er nægja að gera gat á sníphettuna með nál.

Til að koma til móts við menningarlegar og trúarlegar kröfur hafa stjórnvöld fallið frá því að reyna að banna kynfæralimlestingar en hafa þess í stað freistað þess að uppræta skaðvænlegri útgáfur „umskurðarins“ og tryggja öryggi.

Yfirvöld segja að sú útgáfa gjörningsins sem er hvað útbreiddust á Indónesíu, það að gata hettuna með nál, flokkist ekki til kynfæralimlestinga.

Salsa situr hjá móður sinni á meðan athöfnin stendur yfir.
Salsa situr hjá móður sinni á meðan athöfnin stendur yfir. AFP

Sannleikurinn er sá að aðferðirnar sem notaðar eru á Indónesíu eru ekki jafn grófar og þær sem beitt er víða í Afríku og Mið-Austurlöndum, þar sem snípurinn er jafnvel fjarlægður eins og hann leggur sig og skapabarmarnir saumaðir saman.

Sameinuðu þjóðirnar eru hins vegar ósammála niðurstöðu indónesískra yfirvalda og skilgreina kynfæralimlestingar (FGM) sem „skaðvænlega aðgerð á kynfærum kvenna í öðrum en læknisfræðilegum tilgangi“.

Alþjóðasamtökin segja ávinninginn af FGM engan og þá geti limlestingarnar valdið ófrjósemi og aukið líkurnar á vandkvæðum við barnsburð.

Ekki í Kóraninum

Kynfæralimlestingar hafa á síðustu árum orðið hitamál á Indónesíu, þar sem aðgerðasinnar og jafnvel stór samtök múslima hafa sagt þær brjóta gegn yfirráðarétti kvenna yfir eigin líkama.

„Ég tel að það séu engin vers í trú minni sem heimila umskurð kvenna; hann er ekki í Kóraninum,“ segir Khorirah Ali, sem á sæti í nefnd stjórnvalda um kynbundið ofbeldi.

Næststærstu samtök múslima í landinu, Muhammadiyah, ráðleggja fylgjendum sínum að taka ekki þátt í kynfæralimlestingum en stærstu samtökin, Nahdlatul Ulama, og helstu trúaryfirvöld eru fylgjandi hinum svokallaða umskurði.

80% stúlkubarna í Gorontalo, 11 ára og yngri, hafa verið …
80% stúlkubarna í Gorontalo, 11 ára og yngri, hafa verið umskorin. AFP

Stjórnvöld hafa farið fram og aftur í málinu síðustu ár.

Árið 2006 bannaði heilbrigðisráðuneytið læknum að framkvæma kynfæralimlestingar og sagði ávinninginn engan, en trúaryfirvöld úrskurðuðu á móti um „göfgi“ allra kvenna sem gengjust undir aðgerðina.

Nokkrum árum síðar drógu stjórnvöld í land og sögðu að þeir sem hefðu til þess leyfi mættu framkvæma aðgerðina að því gefnu að þeir gerðu ekki annað en að „rispa sníp-hettuna“.

Seinna var fallið frá því en ráð skipað um öryggisviðmið.

Aðgerðasinnar segja misvísandi skilaboð frá yfirvöldum vekja rugling um það hvað megi en á meðan tíðkast enn skaðvænlegar limlestingar á borð við þær sem framkvæmdar eru í Gorontalo.

Jurnalis Uddin, sérfræðingur í kynfæralimlestingum við Yarsi-háskóla í Djakarta, sem einnig situr í ráðgjafanefnd stjórnvalda, segir að leggja eigi áherslu á að hvetja fólk til að iðka hinar síðu skaðlegu útgáfur aðgerðanna.

„Að reyna að útrýma hefðinni er eins og synda gegn straumnum,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert