Af hverju laug Knox upp á bareigandann?

Amanda Knox.
Amanda Knox.

Amanda Knox laug því að bareigandi hefði myrt meðleigjanda sinn, Meredith Kercher, til að villa um fyrir rannsóknarmönnum. Þetta sagði lögmaður bareigandans við réttarhöldin í morðmálinu á Ítalíu í dag.

Í dag hófust rétthöld á ný yfir Amönda Knox og fyrrverandi unnusta hennar í Flórens á Ítalíu. Knox er ekki viðstödd réttarhöldin en hún og Raffaele Sollecito sátu í fangelsi í fjögur ár fyrir að hafa myrt bresku stúlkuna Meredith Kercher. Stúlkan fannst látin í blóðpolli í nóvember árið 2007.

Í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglunni eftir morðið sakaði Knox bareigandann Patrick Lumumba um að hafa myrt Kercher. Lumumba kærði Knox síðar fyrir rangar sakargiftir og vann það mál fyrir dómstólum.

„Af hverju ásakaði hún Lumumba?” sagði lögmaður hans í dag. „Það var til að villa um fyrir lögreglunni.“

Í frétt Telegraph er það rifjað upp að Lumumba var handtekinn og sat í fangelsi í meira en tvær vikur. Honum var loks sleppt eftir að fjarvistarsönnun hans var staðfest af manni sem hafði eytt kvöldinu á bar hans í Perugia.

Í viðtali í síðustu viku var Knox spurð af hverju hún hefði sakað Lumumba um morðið.

„Ég var yfirheyrð af lögreglunni frá því klukkan ellefu um kvöldið og þar til sex um morguninn. Þetta var mjög hörð yfirheyrsla þar sem margt fólk öskraði á mig á tungumáli sem ég skyldi ekki og einn þeirra sló mig í höfuðið.“

Hún segist síðar hafa reynt að draga þetta til baka. 

Frétt mbl.is: Réttarhöld yfir Knox hefjast á ný

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert