Vilja ekki líkið af Priebke

Erich Priebke.
Erich Priebke.

Stjórnvöld í Argentínu hafa lýst því yfir að þau séu ekki reiðubúin að taka við líki Erich Priebke, fyrrverandi foringja í SS-sveitum nasista í síðari heimsstyrjöldinni en hann lést á Ítalíu í gær eitt hundrað ára gamall eftir að hafa verið í stofufangelsi í landinu undanfarin 15 ár vegna fjöldamorða í landinu í stríðinu.

„Hector Timerman, utanríkisráðherra, hefur gefið þá fyrirskipun að ekki verði á neinn hátt fallist á að heimila að lík stríðsglæpamannsins Erichs Priebke verði flutt til landsins okkar,“ segir á Twitter-síðu argentínska utanríkisráðuneytisins. Priebke flýði til Argentínu að stríðinu loknu og bjó í rúmlega 40 ár í borginni Bariloche í suðvesturhluta landsins þar til hann var handtekinn árið 1994 og framseldur til Ítalíu.

Priebke var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 1998 fyrir þátttöku sína í blóðbaðinu í Ardetine-hellunum í nágrenni Rómar, höfuðborgar Ítalíu, í mars 1944 sem kostaði 335 manns lífið og þar á meðal 75 gyðinga. Priebke hélt því alla tíð fram að hann hefði aðeins verið að fylgja fyrirskipunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert