Fundu um 1.500 stolin verk

Tæplega fimmtán hundruð málverk, meðal annars verk eftir Picasso og Matisse, sem stolið var af nasistum fundust í íbúð í Þýskalandi nýverið. Eru verkin metin á um einn milljarð evra, rúmlega 160 milljarða króna. 

Greint var frá þessu í þýska vikuritinu Focus í dag en verkin fundust í íbúð áttræðs manns en faðir hans var listaverkasafnari og hafði sá keypt verkin á fjórða áratugnum.

Í tæplega hálfa öld voru verkin falin í bakherbergjum í íbúðinni í München. Maðurinn hafði selt nokkur verk í gegnum tíðina og lifði á andvirði þeirra segir í grein Focus.

Í safninu fundust verk eftir helstu listamenn síðustu aldar. Má þar nefna Emil Nolde, Franz Marc, Max Beckmann og Max Liebermann. Eins var eitt málverk eftir Henri Matisse sem var áður í eigu gyðings, listaverkasafnarans Paul Rosenberg.

Rosenberg, sem flúði París og skildi listaverkasafn sitt eftir þar, var afi fréttakonunnar Anne Sinclair, sem var gift Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Nasistar stálu fjölmörgum listaverkum í eigu evrópskra gyðinga á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Ef verkunum var ekki stolið þá voru eigendurnir þvingaðir til að selja þau fyrir afar lágar fjárhæðir.

Er talið að nasistar hafi náð til sín um 100 þúsund listmunum á árunum 1940 til 1944. Fjölmörgum þeirra hefur verið skilað til réttra eigenda eftir stríð en einhver þeirra hafa aldrei fundist aftur og ekki vitað hvað varð um þau eftir stríð.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert