Reeva „hefði ekki getað öskrað“

Oscar Pistorius.
Oscar Pistorius. EPA

Verjandi spretthlauparans Oscars Pistorius segir að skot sem Reeva Steenkamp fékk í höfuðið hafi valdið það miklum skaða að það sé útlokað að hún hafi öskrað eftir það.

Þetta kom fram við réttarhöldin í dag.

Með þessum sönnunargögnum dregur verjandinn í efa frásögn vitnis sem segist hafa heyrt Reevu öskra eftir að hún var skotin. 

Verjendateymi Pistorius hefur í morgun yfirheyrt nágranna Pistorius, Michelle Burger, í þaula. Hún sagði m.a. í vitnisburði sínum í gær að hún hefði heyrt konu öskra á sama tíma og skotum var hleypt af. 

„Við munum kalla til vitnis sérfræðinga sem munu staðfesta að það voru svo alvarlegar heilaskemmdir eftir að hún var skotin í höfuðið að það hefði ekki verið mögulegt fyrir hana að öskra,“ sagði aðalverjandinn, Barry Roux, við réttarhöldin í morgun.

Burger sagði þá: „Eins og ég sagði í gær þá heyrði ég rödd hennar stuttu eftir síðasta skotið. Það gæti hafa verið samtímis því að skotinu var hleypt af.“

Réttarhöldin í morðmálinu gegn Oscar Pistorius hófust í gær en talið er að þau geti staðið vikum saman. Pistorius er ákærður fyrir að hafa myrt unnustu sína, Reevu Steenkamp, að yfirlögðu ráði. Hann heldur því hins vegar fram að hann hafi tekið hana í misgripum fyrir innbrotsþjóf.

Frétt Sky um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert