Oscar Pistorius tók fyrir eyrun og grét í réttarsalnum í Pretoríu í morgun. Meinafræðingur, vitni verjanda, var fyrsta vitni dagsins en Pistorius mun sjálfur koma fyrir dóminn síðar í dag.
Meinafræðingurinn Jan Botha lýsti sárum Reevu Steenkamp, unnustu Pistorius, sem hann skaut til bana. Botha sagði að fyrsta skotið hefði hæft Steenkamp í mjöðmina, það næsta í handlegginn. Þriðja kúlan fór í hönd hennar og sú fjórða í höfuð. Þetta er nokkuð sambærilegt við það sem meinafræðingur ákæruvaldsins hélt fram. Hann sagði reyndar að eitt skotið hefði ekki farið í Steenkamp og síðasta skotið, það fjórða, bæði í hönd hennar og höfuð.
Pistorius var leiddur út úr réttarsalnum á tímabili í morgun, hágrátandi.
Pistorius skaut Steenkamp á valentínusardag í fyrra. Hann segist hafa talið hana innbrotsþjóf og skotið í sjálfsvörn.