Ætlar að sanna að Pistorius lýgur

Oscar Pistorius í réttarsalnum fyrir helgi.
Oscar Pistorius í réttarsalnum fyrir helgi. AFP

Í dag ætlar saksóknarinn í morðmáli Oscar Pistorius að sanna að spretthlauparinn lýgur og að lýsing hans á kvöldinu örlagaríka sé ósönn. Í dag situr Pistorius í vitnastúkunni líkt og alla síðustu viku.

Pistorius var ekki fyrr sestur í vitnastúkuna í réttarsalnum í Pretoriu í morgun en að saksóknarinn Gerrie Nel hóf að saka hann um lygar.

„Í dag ætla ég að sanna að þín útgáfa af atburðarásinni er ósönn. Að þú hafir skáldað þína útgáfu,“ sagði saksóknarinn við Pistorius. Bætti hann við að sagan sem Pistorius hefði sagt í síðustu viku væru svo ótrúverðug að að hún geti ómögulega verið sönn.

Pistorius talaði lágt í morgun er hann svaraði spurningum saksóknarans.

„Í dag skynja ég að þú ert óöruggur. Er eitthvað að?“ spurði saksóknarinn.

„Nei,“ svaraði Pistorius.

Saksóknarinn spurði Pistorius sömu spurningar stuttu síðar. „Er eitthvað að þér? Þú ert alltaf að snerta augun.“ Skömmu síðar stoppaði dómarinn saksóknarann er hann hélt áfram að spyrja Pistorius svipaðra spurninga.

Saksóknarinn hefur ítrekað sakað Pistorius um að segja ekki satt frá því sem gerðist nóttina sem hann skaut unnustuna Reevu Steenkamp. Hann hefur m.a. efast um þá frásögn hans að hann hafi læðst inn á baðherbergi, heyrt hurðaskell og hafið að skjóta, haldandi að innbrotsþjófur væri þar á ferð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert