Aldraðir hermenn minnast D-dagsins

Breski uppgjafarhermaðurinn Frederick Wyatt, 92 ára, útskýrir fyrir yngri kynslóðinni …
Breski uppgjafarhermaðurinn Frederick Wyatt, 92 ára, útskýrir fyrir yngri kynslóðinni hvað orðurnar hans úr heimsstyrjöldinni tákna við minningarathöfn í Bayeux í Normandí. AFP

Hundruð aldraðra uppgjafahermanna eru nú stödd í Normandí í Frakklandi til að minnast þess að á morgun verða 70 ár liðin frá D-deginum svo nefnda, þegar bandamenn réðust inn í Frakkland til að brjóta hernám nasista í Evrópu á bak aftur.

Innrásarflotinn við Normandí var sá stærsti í hernaðarsögu veraldar, því um 160.000 hermenn frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada réðust til inngöngu á norðurströnd Frakklands hinn 6. júní 1944 bæði úr lofti og á legi. 500 herskip, 3.000 landgönguprammar og 2.500 aðstoðarskip voru í flotanum.

Áætlað er að um 2.500 af hermönnum bandamanna hafi látið lífið þennan dag.

Minningarnar deyja með þeim

Margir þeirra sem lifðu af eru þó enn á lífi í dag, en með hverju árinu fækkar í þeirra röðum. Þeir yngstu eru hátt á níræðisaldri og verður þetta líklega síðasta stóra minningarathöfnin um innrásina sem þeir upplifa.

Með þeim deyja minningar um ótrúlega orrustu þar sem margir féllu í valinn en varð til þess að Þjóðverjar hörfuðu og töpuðu stríðinu endanlega 11 mánuðum síðar. Samtök uppgjafahermanna frá Normandí segja að meðlimum hafi fækkað úr 15.000 í 600 á nokkrum árum og verða samtökin leyst upp í nóvember.

„Þetta var drápsvöllur. Ég vona að aumingja mennirnir sem létu lífið hér gleymist aldrei,“ hefur BBC eftir 88 ára gömlum herverkfræðingi, Harry Billinge.

Hélt hann næði ekki tvítugu

Sjóhermaðurinn Charlie Stretch segir í samtali við BBC að 6. júní 1944 hafi verið hans síðasti dagur sem táningur. „Tvítugsafmælið mitt var daginn eftir, en ég hélt ég myndi ekki lifa það að verða tvítugur,“ segir hann. 

Karl Bretaprins lagði í morgun blómsveig á minnisvarða við Pegasus-brúna í Frakklandi, en aðgerðir bandamanna hófust aðfaranótt 6. júní 1944 með því að 181 manns fallhlífasveit stökk til jarðar og tryggði yfirráð yfir brúnni til að koma í veg fyrir að nasistar gætu gert gagnárás við Normandí úr þeirri átt.

Leiðtogar 17 ríkja munu svo koma saman á morgun á Sverðaströndinni svonefndu, Sword Beach, ásamt um 650 breskum uppgjafahermönnum. Strandbæirnir í Normandí bera frönsk nöfn, en strendurnar fimm þar sem bandamenn gengu á land eru enn þekktar undir hernaðarlegum heitum sem þeim voru þá gefnar, þ.e. Utah, Omaha, Juno, Gold og Sword.

Frakki í herkæðum bandamanna ekur gömlum amerískum herjeppa í flæðarmálinu …
Frakki í herkæðum bandamanna ekur gömlum amerískum herjeppa í flæðarmálinu í Arromanches-les-Bains í Normandí í Frakklandi í dag. AFP
Ellen og Dorothy Levitsky störfuðu sem herhjúkrunarfræðingar á vígstöðvunum. Þær …
Ellen og Dorothy Levitsky störfuðu sem herhjúkrunarfræðingar á vígstöðvunum. Þær sóttu minningarathöfn um D-daginn í Norður-Frakklandi í dag. AFP
Fallhlífastökkvari með bandaríska fánann á Sword Beach í Normandí til …
Fallhlífastökkvari með bandaríska fánann á Sword Beach í Normandí til minningar um innrásina á D-daginn 1944. AFP
Bandaríski uppgjafarhermaðurinn Edward Oleksak sótti minningarathöfn í Picauville í Norður-Frakklandi …
Bandaríski uppgjafarhermaðurinn Edward Oleksak sótti minningarathöfn í Picauville í Norður-Frakklandi í dag. Á morgun eru 70 ár síðan hann tók þátt í innrás bandamanna í Vestur-Evrópu. AFP
Ungur breskur hermaður vottar forverum sínum virðingu sína í grafreit …
Ungur breskur hermaður vottar forverum sínum virðingu sína í grafreit bandamanna sem féllu í Normandí fyrir 70 árum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert