Segir samt öruggt að fljúga

Tony Tyler, framkvæmdastjóri IATA's á 70. ársfundi samtakanna í júní …
Tony Tyler, framkvæmdastjóri IATA's á 70. ársfundi samtakanna í júní 2014. AFP

Eftir svarta viku í flugumferð, þar sem yfir 460 manns létu lífið í þremur brotlendingum, segjast Alþjóðasamtök flugfélaga (IATA) munu leggja allt kapp á að efla flugöryggi í heiminum.

Nú er vika liðin síðan farþegaflugvél Malaysia Airlines var skotin niður yfir Úkraínu, með þeim afleiðingum að 298 manns létu lífið. Á miðvikudaginn hrapaði svo taívönsk farþegaflugvél í miklum veðurofsa í suðvesturhluta Taívans og létu 48 manns lífið.

Í gær hvarf svo farþegaflugvél Air Algeria skyndilega af ratsjám yfir Afríku. Flakið fannst í gærkvöldi í miðri Sahara-eyðimörkinni í Malí og í morgun var staðfest að enginn af 116 farþegum og starfsmönnum um borð lifðu af. Talið er að vélin hafi hrapað vegna veðurs.

Tvöfalt fleiri dóu á sjö dögum en allt síðasta ár

„Eftir þrjá slíka harmleiki í röð á skömmum tíma eru eflaust margir sem, skiljanlega, hafa efasemdir um öryggi sitt á flugi,“ segir í yfirlýsingu frá Tony Tyler, yfirmanni samtakanna.

„Mesti virðingarvottur sem við getum sýnt minningu þeirra sem fórust er að gera allt sem í okkar valdi stendur til að skilja ástæðurnar sem liggja að baki og tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. Fyrsta forgangsatriði okkar er öryggi. Og þrátt fyrir atburði síðustu sjö daga er öruggt að fljúga,“ segir Tyler.

Á þessum sjö dögum hafa tvöfalt fleiri látið lífið í flugslysum en á öllu síðasta ári, eða 460 manns á móti 210 í fyrra. Þrátt fyrir þetta minnir IATA á það í yfirlýsingunni í dag að það að stíga upp í flugvél sé einn öruggasti samgöngumáti sem til er.

„Kjarnamarkmið flugiðnaðarins er að tryggja öryggi viðskiptavina okkar þegar við flytjum þá um heiminn,“ segir Tyler.

IATA eru samtök 240 flugfélaga um heim allan, sem í sameiningu annast 84% af allri flugumferð heims.

Flak flugs GE222 frá TransAsia Airways that sem hrapaði til …
Flak flugs GE222 frá TransAsia Airways that sem hrapaði til jarðar við bæinn Magong á Penghu eyju 25. júlí 2014. AFP
Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri …
Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri þorpinu Grabove, í Donetsk héraði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert