Tveir bandarískir ríkisborgarar sem smitaðir eru af ebólu-veirunni verða fluttir aftur til Bandaríkjanna frá Afríku á næstu dögum.
„Öryggi bandarískra ríkisborgara er okkur efst í huga,“ sagði Marie Harf, talskona innanríkisráðuneytis Bandaríkjanna þegar hún staðfesti flutninginn. Hún sagði að öryggi sjúklinganna yrði tryggt og að þeir yrðu fluttir með einkaþotu og hafðir í sóttkví þegar til Bandaríkjanna er komið.
Bandaríski læknirinn Kent Brantly og trúboðinn og hjúkrunarfræðingurinn Nancy Writebole eru bæði sýkt veik af veirunni. Þau eru bæði í Líberíu og er ástand þeirra sagt vera alvarlegt en stöðugt. Brantly hefur vakið athygli eftir að hann krafðist þess að Writebole fengi eina skammtinn sem til er af tilraunalyfi gegn sjúkdómnum.
Harf neitaði að upplýsa hverjir það væru sem fluttir verða til Bandaríkjanna og ekki er því ljóst hvort það séu Brantly eða Writebole.
Forsvarsmenn Emory háskólasjúkrahússins í suðurhluta Georgíu-fylkis greindu frá því í dag að þeir ættu von á sjúklingi sem sýktur væri af ebólu-veirunni á næstu dögum þar sem hann yrði hafður í sóttkví.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur sagt að ebólu-faraldurinn sé að verða stjórnlaus í þeim löndum Vestur-Afríku þar sem hann geisar og gæti breiðst út til annarra landa.
WHO segir að í það minnsta 729 hafi látist úr ebólu frá því að faraldurinn hófst í febrúar. Yfir 1.300 hafa sýkst.