Frumniðurstöður rannsóknar á flugvél Air Algerie, sem fórst þann 24. júlí í Malí, liggja nú fyrir. Vélin tók að falla til jarðar eftir að hafa misst hraða og tekið krappa beygju. Svo virðist sem hún hafi skollið til jarðar í heilu lagi á mikilli ferð.
Remi Jouty, formaður frönsku rannsóknarnefndarinnar segir í samtali við AFP að upptökurnar úr flugstjórnarklefanum séu ónothæfar enn sem komið er. „Upptökutækið var laskað en við náðum einhverjum upptökum af því. Sérfræðingar okkar vinna nú að því að gera upptökurnar nothæfar,“ sagði Jouty.
Hann segir að rannsóknin hafi enn ekki gefið neina endanlega niðurstöðu í málinu. Það eina sem virðist liggja fyrir er að vélin hefur fallið næstum lóðrétt til jarðar á miklum hraða og að hún var sennilega í heilu lagi við brotlendinguna.
„Þegar við skoðum ferilinn sem vélin hefur fallið eftir, sýnir það okkur að hún hefur ekki brotnað í smærri hluta á leiðinni til jarðar. Þetta útilokar þó ekki alveg að hún hafi orðið fyrir einhverju höggi áður en hún féll til jarðar, segir Jouty.
Hann segist ekki telja annað en að um slys hafi verið að ræða. Þrátt fyrir það er rannsóknin svo stutt á veg komin að engir möguleikar eru útilokaðir, þar á meðal að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.