Lögreglan gagnrýnd fyrir störf sín

Breska lögreglan sætir gagnrýni vegna þess hvernig staðið var að …
Breska lögreglan sætir gagnrýni vegna þess hvernig staðið var að leitinni í upphafi AFP

Lundúnalögreglan sætir nú harðri gagnrýni fyrir það hvernig hún stóð að leitinni að Alice Gross, fjórtán ára gamalli stúlku, sem hvarf sporlaust í úthverfi borgarinnar fyrir fjórum vikum síðan. 

Líkt og fram hefur komið hvarf Alice Gross þann 28. ágúst í Ealing í vesturhluta Lundúnaborgar. Bak­poki henn­ar fannst skammt frá stíg við ána Brent, milli Hanwell brú­ar­inn­ar og Grand Uni­on skipa­sk­urðar­ins þann 2. sept­em­ber.

Lögreglan hefur rúmlega fertugan Letta grunaðan um aðild að hvarfi hennar og hefur verið lýst eftir honum. Ekkert hefur spurst til Arn­is Zalkaln frá 3. september og í síðustu viku leitaði lögreglan til starfsfélaga sinna í Lettlandi um að kanna hvort Zalkalns hafi snúið aftur til heimalandsins. Þar var hann dæmdur fyrir að hafa myrt eiginkonu sína árið 1998 og sat í fangelsi fyrir morðið í fjö ár.

Bróðir hans, Janis Daksa Zalkalns, er ósáttur við hvernig Arn­is Zalkaln er lýst í fjölmiðlum og allt of dökk mynd sé gefin af honum. Lögreglumenn frá Lundúnum fóru í gær til Riga, höfuðborgar Lettlands til þess að afla upplýsinga um Zalkaln. 

Janis Zalkalns segir í samtali við BBC að enginn hafi áhuga á að vita að bróðir hans er góður maður heldur sé honum lýst sem skrímsli. Það er sé það sem fólk vill. 

Arnis Zalkalns, 41 árs, var dæmdur fyrir að hafa farið með eiginkonu sína, Rudite, út í skóg og ráðist á hana með stálstöng og hnífi. Samkvæmt gögnum málsins var Zalkalns metinn sakhæfur og að hann hafi vitað nákvælega hvað hann var að gera þegar hann myrti eiginkonu sína og gróf lík hennar í skóginum.

Á morgun ætlar lögreglan að líkja eftir atburðarrásinni, eins og talið er að hún hafi verið, þegar Alice Gross hvarf fyrir fjórum vikum. Á vef Sky kemur fram að þrátt fyrir að fylgt eftir 729 vísbendingum, rætt við tæplega ellefu hundruð manns og svarað yfir eitt þúsund símtölum í tenglsum við hvarf stúlkunnar, hefur ekkert komið í ljós hvar stúlkan geti verið.

Lögreglan kembir nú svæðið í kringum ána Brent þar sem bakpoki hennar fannst en án árangurs. Ekki liggur fyrir hvort hnífur sem fannst í ánni tengist hvarfi stúlkunnar.

Allir þeir sem geta veitt upplýsingar um hvarf Alice eru beðnir um að hafa samband við lögreglu og ef vísbendingar koma fram sem leiða til þess að hún finnst fær viðkomandi 20 þúsund pund greidd fyrir aðstoðina.

Samkvæmt Daily Mail vekur það undrun hvernig tekið var á hvarfinu í upphafi þegar hver mínúta getur skipt sköpum. Þingmenn hafa lýst yfir áhyggjum yfir þessu og eins er lögreglan gagnrýnd fyrir það hversu seint var leitað til yfirvalda í Lettlandi eftir aðstoð. 

Ráðherrar í Lettlandi segja að það hafi ekki verið í valdi þarlendra stjórnvalda að hindra Zalkalns við að fara til Bretlands enda brjóti slíkt gegn ferðafrelsi samkvæmt skilgreiningu ESB. Eins hafi hann lokið afplánun dómsins þegar hann yfirgaf Lettland og átti fullan rétt á að ferðast.

Viðamesta aðgerð lögreglu í níu ár

Alice Gross
Alice Gross
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert