Gæti stutt úrsögn úr ESB

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, hefur gefið til kynna að hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu ef ekki tekst að endursemja með árangursríkum hætti um veru þeirra í sambandinu. Cameron hefur til þessa tala fyrir áframhaldandi veru í ESB á breyttum forsendum.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að búist sé við að Cameron noti ræðu sína á flokksþingi Íhaldsflokksins sem nú stendur yfir til þess að kynna áætlanir um að endurheimta frekari völd yfir landamærum Bretlands og til þess að stemma stigum við komum innflytjenda til landsins frá öðrum ríkjum ESB.

Litið er á útspil forsætisráðherrans sem viðbrögið við úrsögn tveggja þingmanna Íhaldsflokksins að undanförnu en þingmennirnir, Mark Reckless og Douglas Carswell, hafa gengið til liðs við Breska sjálfstæðisflokkinn (UKIP). 

Cameron hefur heitið því að boða til þjóðaratkvæðis um veru Bretlands í ESB árið 2017 í kjölfar samningaviðræðna við sambandið um aðild landsins nái Íhaldsflokkurinn meirihluta þingsæta á breska þinginu í þingkosningunum á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert