Svikahrappar að baki snapchat-stuldi

Snapchat er notað til að senda myndir og myndskeið til …
Snapchat er notað til að senda myndir og myndskeið til vina og kunningja. AFP

Talið er að um 200 þúsund notendur Snapchat hafi verið ginntir til þess að nota vefsíðuna Snapsaved.com sem varð til þess að svikahrappar komust yfir þúsundir mynda sem sendar voru í gegnum appið Snapchat. Í frétt Guardian um málið segir að talið sé að þeir sömu séu á bak við gabbsíðuna og stálu og birtu nektarmyndir af frægum leikkonum í ágúst, þeirra á meðal Jennifer Lawrence.

Með appinu Snapchat er hægt að taka myndir og myndskeið á farsíma og senda til vina sem geta svo aðeins séð þær í nokkrar sekúndur. Snapchat harðneitar að öryggiskerfi appsins hafi brugðist og kennir þriðja aðila, þeim sem ginntu ungmennin á Snapsaved.com, um.

Með því að nota Snapsaved.com gátu notendur Snapchat séð og vistað myndir sem þeir sendu og fengu í gegnum appið í borðtölvu, ekki aðeins farsíma eða í spjaldtölvu.

Þeir sem stóðu að baki síðunni eru nú hins vegar grunaðir um að hafa vistað lykilorð og notendanöfn notenda síðunnar og með þeim hætti komist inn á netþjóna Snapchat og náð þaðan myndum. App sem kallast Snapsave, og hefur sömu virkni og Snapchat, er ekki talið eiga þátt í þessu máli, segir í frétt Guardian.

Með þessum slungna hætti urðu notendur Snapchat, sem höfðu skráð sig inn á Snapsaved.com, einskis varir.

Í frétt Guardian segir að talið sé, þótt enn eigi eftir að sanna það, að á bak við Snapsaved.com séu sömu aðilar og stálu nektarmyndum af frægum leikkonum og birtu á netinu. Í báðum tilvikum var tilkynnt um yfirvofandi birtingu myndanna á vefnum 4chan.

Á föstudag birtist tilkynning á spjallborði 4chan um að Snapchat-myndum yrði lekið og í dag fór í loftið vefsíða þar sem hægt var að nálgast gríðarlegt magn efnis sem sagt var hafa verið tekið af Snapchat.

Margir telja að með því að fara á síðuna og skoða efni hennar geti sá hinn sami verið að brjóta lög þar sem þar megi finna nektarmyndir, jafnvel af ólögráða börnum.

Snapchat segir í yfirlýsingu í dag að nú sé staðfest að ekki hafi verið brotist inn í netþjónanna. Hins vegar séu notendur Snapchat fórnarlömb sem ginnt hafi verið til að nota forrit þriðja aðila til að senda og taka við myndum.

Þó að líklega sé rétt að ekki hafi verið brotist beinlínis inn í netþjóna Snapchat er mörgum mjög brugðið því með krókaleiðum hafi óprúttnir aðilar komist yfir lykilorð og notendanöfn og notað þau.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert