Fleiri Bretar vilja ganga úr Evrópusambandinu en sem vilja vera áfram innan þess ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið YouGov gerði fyrir síðustu helgi. Samtals vilja 44% yfirgefa sambandið en 35% vera þar áfram.
Fram kemur í breskum fjölmiðlum að sama fyrirtæki hafi gert hliðstæða skoðanakönnun fyrir viku síðan þar sem 40% vildu segja skilið við Evrópusambandið en 41% vera áfram innan þess. Miklar sveiflur hafi verið í þeim efnum á undanförnum vikum og mánuðum.
Haft er eftir Stephan Shakespeare, framkvæmdastjóra YouGov, að hann sé sannfærður um að takist David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, að endursemja um að einhverju leyti um veruna í Evrópusambandinu kjósi breskir kjósendur að vera áfram í sambandinu í fyrirhuguðu þjóðaratkvæði sem Cameraon hefur heitið 2017.