Auglýsir eftir alnöfnu fyrrverandi

Mynd af Axani, tekin af Facebook síðu hans.
Mynd af Axani, tekin af Facebook síðu hans. Mynd af Facebook

Þegar Jordan Axani hætti með kærustunni sinni Elizabeth Gallagher sat hann uppi með flugmiða í heimsreisu í hennar nafni. Nú hefur hann lýst eftir konu sem heitir sama nafni og fyrrverandi, til þess að fara með honum í ferðina sem hefst 21. desember.

Konan þarf s.s. að heita Elizabeth Gallagher, vera með kanadískt vegabréf og til í ævintýri.

„Í mars bókaði ég stórfenglega heimreisu fyrir mig og þáverandi kærustu mína um jólin,“ útskýrði Axani á Reddit fyrr í vikunni. „Samband okkar er nú búið en ég ætla mér samt að fara í ferðina og hún ekki (væntanlega). Þar sem ég vil ekki að flugmiðinn hennar fari til spillis leita ég að kanadískri konu sem heitir Elizabeth Gallagher sem gæti notað miðana. 

Ferð Axanis hefst í New York-borg 21. desember og lýkur í Toronto 8. janúar. Viðkomustaðir hans verða m.a. Mílanó, Prag, París, Bangkok og Nýja-Delhí. 

Axani segist þó ekki vera á höttunum eftir nýrri kærustu og þetta verði ekki rómantísk ferð. Er hann aðeins að leita að félaga sem er til í að „ferðast saman og sjá flotta hluti“.

„Ég vil ekki fá neitt í staðinn. Ég er ekki að leita að félagsskap, rómantík, eiturlyfjum, skiptum eða einhverjum til þess að taka sjálfsmyndir með fyrir framan jólamarkaðinn í Prag,“ sagði hann á Reddit. „Ef þú gætir hent í mig nokkur hundruð dölum væri það frábært. En það eina sem ég bið um er að þú njótir ferðarinnar og hún færi þér hamingju.“

Samkvæmt frétt The Independent hefur Axani þegar fundið konu sem gæti farið með honum. Hún heitir Elizabeth Gallagher en viðurkennir að hún sé töluvert eldri en Axani. 

„Ég er nógu gömul til þess að vera mamma hans. En ef það er engin yngri sem er til verð ég að segja að þetta væri áhugavert. Dætur mínar segja mér að gera þetta og óska þess að þær hétu það sama og ég,“ stóð m.a. í hennar færslu.

Axani svaraði einfaldlega „frábært“ og hefur beðið Gallagher að vera í sambandi. 

Umfjöllun The Independent um málið. 

Færslan á Reddit. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert