Merki illsku en líka friðar og gæfu

Hakakross.
Hakakross. AFP

Róttæklingar og valdasjúkir ofstækismenn hafa í gegnum söguna notað veifur og fána með merki eða áletrun sem á að sameina og hvetja til baráttu. Markaðsfræðingar nútímans myndu líklega nota enska orðið „brand“ yfir fyrirbærið fremur en vörumerki, í viðskiptaheiminum mun brandið Coca Cola vera frægast. Bæði kommúnistar og síðar nasistar komu sér upp þekktum vörumerkjum. Og IS-menn í Sýrlandi og Írak sveifla svörtum fána með hvítri áletrun: „Enginn er Guð nema Allah“.

Svartur fáni íslams á sér rætur í tíð Múhameðs spámanns, með hann í fararbroddi lögðu arabar undir sig stóran hluta heimsins þegar á miðöldum. Blóði stokknir liðsmenn IS telja sig vera réttkjörna arftaka en hafa aðallega sýnt hetjuskap sinn við að murka lífið úr saklausu fólki.

Kommúnistar í Sovétríkjunum gerðu hamar með áfestri sigð að merki sínu 1923, merkið skreytti fána landsins. Hamarinn táknaði verkamenn en sigðin smábændur. Merkið, í ýmsum gerðum, varð að sjálfsögðu geysilega útbreitt og er enn á mörgum opinberum byggingum, þótt Sovétríkin hafi hrunið 1991. Sum héruð og borgir í Rússlandi nota það enn og einnig er það ennþá í merki rússneska flugfélagsins Aeroflot.

Nokkur fyrrverandi kommúnistaríki A-Evrópu hafa bannað notkun þessa tákns og reynt að fá Evrópusambandið til að gera slíkt hið sama. Þau segja að með því að leyfa kommúnistatáknið sé verið að „gera lítið úr glæpaverkum kommúnista“ sem sé ekkert skárra en að leyfa fólki að afneita Helförinni.

En líklega er hakakrossinn (í útgáfu nasista) þekktasta vörumerki óþjóðalýðs og hroðaverka sem um getur á Vesturlöndum. Þótt langt sé síðan Hitler skaut sig í byrginu í Berlín 1945 vekur merkið enn óhug okkar.

Eimskip, Falun Gong og hásæti Dalai Lama

Fyrir nokkrum árum hætti Eimskip að nota gamla merkið sitt á stefni skipanna en það var blár hakakross með stuttum örmum.

Það var einfaldlega allt of flókið að útskýra fyrir öðrum þjóðum að merkið hefði verið tekið í notkun 1914, þegar Hitler reyndi enn að skrimta sem póstkortamálari í München.

Og ekki dugar heldur að minna á að finnski flugherinn málaði bláan hakakross á vélar sínar löngu fyrir tíma nasista. Kínverska þjálfunar- og íhugunarhreyfingin Falun Gong notar hakakross í sínu merki, hann barst fyrir um 2000 árum til Kína frá Indlandi með búddismanum. Og hvarvetna um sunnanverða Asíu má sjá þetta merki á búddahofum og veraldlegri fyrirbærum eins og rútum og verslunum. Skátahreyfingin notaði táknið til 1935, sama gerði bandaríska guðspekifélagið lengi. Og í Tíbet skreytir það hásæti hins útlæga Dalai Lama.

Hakakrossinn, sem á fornmáli Indverja, sanskrít, heitir swastica, er miklu eldri en nasisminn. Fundist hafa 10.000 ára gömul hellamálverk með hakakrossum og táknið mun hafa fundist á leifum af 2000 ára gömlu gyðingamusteri í Palestínu. Stjörnufræðingurinn Carl Sagan benti á að merkið gæti táknað halastjörnu sem gæti útskýrt hve víða það finnst. Á Norðurlöndum var hakakrossinn nefndur Þórshamar og táknið barst með víkingum til Englands á miðöldum.

Hakakrossinn finnst í fjölmörgum litum og útfærslum og hefur sennilega verið stílfært sólartákn, hann er heilagur í hindúisma og búddisma. Einnig getur hann táknað gæfu en þá álíta sumir að menn megi ekki snúa merkinu eins og þeim hentar.

Uppruninn er álitinn vera í Indlandi þótt hakakrossinn hafi fundist um allan heim, þ. á m. hjá indjánum í Norður-Ameríku. Á gamalli ljósmynd sést að indverskt skip, Jaladhanya, var með samskonar mynd og Eimskip á stefninu 1974, krossinn á skipinu var þó rauður en ekki blár.

Einn sérkennilegasti fáni ofstækissamtaka í Miðausturlöndum er líklega sá sem Hizbollah í Líbanon, samtök heittrúaðra sjía-múslíma, nota. Til eru nokkur afbrigði en algengastur er sá guli með græna mynd af Kalasníkov-hríðskotabyssu! Samtökin hafa lengi haft mikil áhrif í landinu, ekki síst vegna þess að þau reka eigin herafla. Fyrir nokkrum árum reyndi Ísraelsher með litlum árangri að ganga á milli bols og höfuðs á Hizbollah vegna endurtekinna flugskeytaárása samtakanna yfir landamærin á Ísrael.
Fáni ISIS
Fáni ISIS Af vef Wikipedia
Fáni Sovétríkjanna.
Fáni Sovétríkjanna. AFP
Hakakross.
Hakakross. AFP
Hakakrossinn.
Hakakrossinn. mbl.is/Árni Sæberg
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert