Verður ekki aftur snúið

Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands.
Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands. AFP

Stjórnvöld í Bretlandi eru tilbúin til að ganga frá samningaborði Evrópusambandsins, ef óskir þeirra eftir nýjum reglum um fólksflutninga milli landa verða hunsaðar. Það myndi aftur auka líkurnar á því að Bretar gengju úr bandalaginu. Þetta sagði utanríkisráðherra landsins, Phillip Hammond, í samtali við Daily Telegraph í gær.

Hammond sagði að breska þjóðin gæti kosið að yfirgefa Evrópusambandið ef ekki kæmi til „umtalsverðra þýðingarmikilla endurbóta“ í Brussel.

David Cameron forsætisráðherra hefur heitið þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild 2017, ef Íhaldsflokkurinn heldur völdum eftir þingkosningar á næsta ári, en illa gengur að fá aðra Evrópuleiðtoga til stuðnings við hugmyndir breskra stjórnvalda um endurskoðun reglna um fólksinnflutning.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, varaði Cameron við því í síðustu viku að hann nálgaðist óðum þann stað þar sem ekki yrði hægt að snúa við hvað varðaði tillögurnar.

Hammond segir hins vegar að það verði alls ekki aftur snúið; Bretland sé „tilbúið til þess að standa upp frá borðinu og ganga burt“ ef tillögur þess verða ekki teknar til skoðunar.

„Við verðum að vera tilbúin til þess. Í þessu tilfelli er það ekki einu sinni okkar ákvörðun af því að við endann á þessari vegferð bíður þjóðaratkvæðagreiðsla,“ var haft eftir honum á vefsíðu Telegraph.

Hammond, sem er langt í frá harðasti stuðningsmaður Evrópusambandsins, hét því að vera opinskár gagnvart öðrum aðildarríkjum sambandsins og vara þau við að breskur almenningur vænti niðurstöðu.

„Ég myndi vilja segja við þýska kollega minn í fullri hreinskilni: ef þú dregur línuna þarna, þá held ég að við komum þessu ekki í gegn hjá breskum almenningi í þjóðaratkvæði, en ef þú gætir fært línuna þangað, þá held ég að það gæti tekist.“

Hann sagði ekki um að ræða að settur yrði kvóti á fjölda innflytjenda sem kæmu til Bretlands frá öðrum Evrópulöndum en gaf til kynna að hann myndi varpa fram hugmyndum sem skiluðu áþekkri niðurstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert