Verður ekki aftur snúið

Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands.
Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands. AFP

Stjórn­völd í Bretlandi eru til­bú­in til að ganga frá samn­inga­borði Evr­ópu­sam­bands­ins, ef ósk­ir þeirra eft­ir nýj­um regl­um um fólks­flutn­inga milli landa verða hunsaðar. Það myndi aft­ur auka lík­urn­ar á því að Bret­ar gengju úr banda­lag­inu. Þetta sagði ut­an­rík­is­ráðherra lands­ins, Phillip Hammond, í sam­tali við Daily Tel­egraph í gær.

Hammond sagði að breska þjóðin gæti kosið að yf­ir­gefa Evr­ópu­sam­bandið ef ekki kæmi til „um­tals­verðra þýðing­ar­mik­illa end­ur­bóta“ í Brus­sel.

Dav­id Ca­meron for­sæt­is­ráðherra hef­ur heitið þjóðar­at­kvæðagreiðslu um áfram­hald­andi aðild 2017, ef Íhalds­flokk­ur­inn held­ur völd­um eft­ir þing­kosn­ing­ar á næsta ári, en illa geng­ur að fá aðra Evr­ópu­leiðtoga til stuðnings við hug­mynd­ir breskra stjórn­valda um end­ur­skoðun reglna um fólks­inn­flutn­ing.

Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, varaði Ca­meron við því í síðustu viku að hann nálgaðist óðum þann stað þar sem ekki yrði hægt að snúa við hvað varðaði til­lög­urn­ar.

Hammond seg­ir hins veg­ar að það verði alls ekki aft­ur snúið; Bret­land sé „til­búið til þess að standa upp frá borðinu og ganga burt“ ef til­lög­ur þess verða ekki tekn­ar til skoðunar.

„Við verðum að vera til­bú­in til þess. Í þessu til­felli er það ekki einu sinni okk­ar ákvörðun af því að við end­ann á þess­ari veg­ferð bíður þjóðar­at­kvæðagreiðsla,“ var haft eft­ir hon­um á vefsíðu Tel­egraph.

Hammond, sem er langt í frá harðasti stuðnings­maður Evr­ópu­sam­bands­ins, hét því að vera op­in­skár gagn­vart öðrum aðild­ar­ríkj­um sam­bands­ins og vara þau við að bresk­ur al­menn­ing­ur vænti niður­stöðu.

„Ég myndi vilja segja við þýska koll­ega minn í fullri hrein­skilni: ef þú dreg­ur lín­una þarna, þá held ég að við kom­um þessu ekki í gegn hjá bresk­um al­menn­ingi í þjóðar­at­kvæði, en ef þú gæt­ir fært lín­una þangað, þá held ég að það gæti tek­ist.“

Hann sagði ekki um að ræða að sett­ur yrði kvóti á fjölda inn­flytj­enda sem kæmu til Bret­lands frá öðrum Evr­ópu­lönd­um en gaf til kynna að hann myndi varpa fram hug­mynd­um sem skiluðu áþekkri niður­stöðu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert