Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, heitir því að bandarísk yfirvöld muni bregðast við meintum tölvuárásum norðurkóreskra stjórnvalda á Sony Pictures. Obama sagði ennfremur, að Sony hefði gert mistök því að að hætta við að sýna gamanmyndnina The Interview sem milliríkjadeilan snýst um.
Myndin, sem er með þeim Seth Rogen og James Franco í aðalhlutverkum, fjallar um morðtilræði gegn Kim Jon-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Þetta kemur fram á vef BBC.
„Við getum ekki lifað í samfélagi þar sem einhver einræðisherra einhversstaðar getur byrjað að beita ritskoðun í Bandaríkjunum,“ sagði Obama.
Bandaríska alríkislögreglan (FBI) sagði fyrr í dag, að stjórnvöld í N-Kóreu tengist tölvuárásinni á Sony, en tölvuþrjótar komust yfir viðkvæmar upplýsingar og gerðu þær opinberar.
Í framhaldinu ákvað Sony að hætta við að sýna myndina vegna áframhaldandi hótana.
„Við munum bregðasat við,“ sagði Obama við blaðamenn í dag, en hann vildi hins vegar ekki veita nánari upplýsingar um hvers konar viðbrögð væri umað ræða. „Við munum bregðast við í réttu hlutfalli og á þeim stað, tíma og þann máta sem við kjósum,“ sagði forseti Bandaríkjanna.
Yfirvöld ytra hafa einnig í hyggju að setja Norður Kóreu aftur á lista yfir hryðjuverkaríki, en fyrir sjö árum ákváðu Bandaríkin að taka Norður Kóreu af listanum til að reyna að liðka til í samskiptum ríkjanna. Fyrir þann tíma hafði ríkið verið í ein 20 ár á lista yfir skilgreind hryðjuverkaríki.