„Ég tók eftir að bíllinn gaf inn og fór upp á gangstétt. Hann keyrði eftir gangstéttinni. Fólk lá eins og hráviði. Það lágu í valnum svona 10-12 manns. Hann fer langa vegalengd eftir gangstéttinni þar sem hann straujar niður fólk,“ segir Virgill Scheving Einarsson sem staddur var í Queen-street í Glasgow þegar ruslabíll ók á hóp vegfarenda fyrr í dag. Sex eru látnir eftir slysið og að minnsta kosti sjö eru alvarlega slasaðir.
Virgill bjó lengi í borginni en hann er þar nú í verslunarferð. Hann þurfti að bregða sér í hraðbanka og það var þá sem slysið átti sér stað í götunni. Hann segist hafa verið búinn að heyra í bílnum þar sem verið var að fylla sorp á hann. Hann áætlar að bifreiðin hafi verið rúm þrjátíu tonn að þyngd.
„Hann endar á húsinu og bílinn öskraði náttúrlega þar. Það stukku til nokkrir götulögreglumenn og slökktu á bílnum. Maðurinn [bílstjórinn] var bara stjarfur, hann fékk hjartaáfall. Maður er svolítið sleginn yfir þessu að horfa á þetta. Bærinn var alveg morandi af fólki,“ segir hann.
Fjölda sjúkra- og lögreglubíla dreif á staðinn og segir Virgill að þyrlu hafi verið lent á torginu. Öll umferð í miðborginni hafi verið stöðvuð vegna slyssins sem lögregla hefur lýst sem stórslysi. Ennþá sé verið að reyna að greiða úr flækjunni og koma fólki heim til sín úr miðborginni til úthverfanna.
Virgill segir fólk slegið yfir slysinu. Það hafi hópast saman en fréttin hafi farið eins og eldur í sinu. Hann hafi séð fólk gráta við húshorn og verslanir. Einnig hafi hann séð lögreglumenn reyna að róa mann sem var í uppnámi en hann og konan hans höfðu skipt liði í verslunarleiðangrinum og hann hafði ekki fundið hana.
„Það var bara brot úr mínútu. Ég hefði farið yfir götuna og farið þarna. Hann hefði alveg eins getað tekið mig eins og aðra,“ segir Virgill spurður hvort hann hafi sjálfur verið í hættu.
Fyrri fréttir mbl.is: