Leynilegt kjarnorkuver þýskra nasista hefur fundist í bæjarfélaginu St Georgen an der Gusen í norðurhluta Austurríkis en um er að ræða kerfi neðanjarðarbyrgja sem spannar 75 ekrur. Kjarnorkuverið fannst í raun fyrir hálfgerða tilviljun en vart varð við óvenjumikla geislavirkni á svæðinu og var því farið í það að rannsaka það. Vefsíðan Warhistoryonline.com fjallar um málið í dag.
Talið er að neðanjarðarbyrgin hafi verið reist með því að neyða fanga til þess. Líklega frá einangrunarbúðunum Mauthausen-Gusen sem staðsettar voru í nágrenninu. Jafnvel hafi allt að 320 þúsund fangar verið neyddir til þess að vinna að framkvæmdunum. Byggingar á yfirborðinu yfir neðanjarðarbyrgjunum voru skoðaðar af bandamönnum eftir síðari heimsstyrjöldina en inngangurinn að neðanjarðarbyrgjunum fannst ekki þá enda hafði verið steypt fyrir innganginn og hann þannig falinn.
Enn er unnið að því að rannsaka neðanjarðarbyrgin en fundist hafa ýmsar minjar tengdar nasistum og þar á meðal hermannahjálmar. Talið er að vísindamenn úr röðum fanga nasista hafi einnig verið neyddir til þess að starfa við kjarnorkurannsóknir í neðanjarðarbyrgjunum. Talið er að um 20 þúsund fangar hafi látið lífið við að reisa neðanjarðarbyrgin.
Kvikmyndaframleiðandinn Andreas Sulzeris hefur leitt vinnuna. Hann fann göngin í tengslum við rannsókn sína á löngun Adolfs Hitlers, leiðtoga þýskra nasista, á að framleiða kjarnorkusprengjur. Vísbendingar um kjarnorkuverið fundust í dagbókum fanga sem unnu við það og leynilegum skýrslum sem hafa verið gerðar opinberar. Áður hafa fundist upplýsingar um kjarnorkuáætlun nasista. Meðal annars fundust á sínum tíma 126 þúsund tunnur í gamalli námu í nágrenni þýsku borgarinnar Hanover fullar af geislavirkum efnum.