Reiðubúinn að sjá á bak Bretum

Jean-Claude Juncker.
Jean-Claude Juncker. AFP

„Fólk ætti ekki að vera saman ef aðstæður eru ekki þær sömu og í byrjun,“ sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, fyrr í vikunni í París höfuðborg Frakklands en umræðuefnið var hugsanlegt brotthvarf Bretlands úr sambandinu. Sagði hann að það væri auðvelt að verða ástfanginn en erfiðara að viðhalda sambandinu.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að Juncker hafi ekki áður sent jafn skýr skilaboð frá sér um að hann væri reiðubúinn að horfa á eftir Bretlandi úr Evrópusambandinu. Bretar gengu í forvera sambandsins árið 1973en David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur heitið því að fram fari þjóðaratkvæði um áframhaldandi veru innan þess beri Íhaldsflokkur hans sigur úr býtum í þingkosningunum sem fram fara í Bretlandi í maí.

Juncker útilokaði ennfremur að gerðar yrðu breytingar á sáttmálum Evrópusambandsins varðandi frjálst flæði fólks. Engar málamiðlanir yrðu gerðar í þeim efnum, en Cameron hefur lýst því yfir að hann ætli að semja um að ákveðnar breytingar verði gerðar á sáttmálunum sem þjóni hagsmunum Breta. Juncker sagði að ekki kæmi til greina að gerðar yrði breytingar á þeim til þess að gera einstökum stjórnmálamönnum til geðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert