Vilja ekki lengur hluta Tékklands

Flokkur Súdeta-Þjóðverja og þýski Nasistaflokkurinn sameinaðir formlega árið 1938.
Flokkur Súdeta-Þjóðverja og þýski Nasistaflokkurinn sameinaðir formlega árið 1938. Wikipedia

Samtök Súdeta-Þjóðverja samþykktu á landsfundi sínum í gær að hætt yrði að gera kröfu um endurheimt landsvæða í austurhluta Tékklands þar sem þeir og forfeður þeirra bjuggu fyrir lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Fram kemur í frétt Thelocal.de að samþykkt hafi verið að fjarlægja úr stefnuskrá samtakanna texta þar sem fram hafi komið krafa um að endurheimta heimaland Súdeta-Þjóðverja og njóta þar sjálfsákvörðunarréttar og sömuleiðis kröfu um skaðabætur.

Fyrir styrjöldina bjuggu Súdeta-Þjóðverjar í landamærahéruðum þáverandi Tékkóslóvakíu, sem Tékkland var hluti af, að Þýskalandi. Nasistaforinginn Adolf Hitler krafðist þess árið 1938 að héruðin yrðu innlimuð á þeim forsendum að þar byggi þýskumælandi fólk.

Hitler lét sér hins vegar ekki nægja að innlima þessi héruð heldur lagði undir sig alla Tékkóslóvakíu. Eftir stríðið flúðu Súdeta-Þjóðverjar líkt og fleira þýskumælandi fólk hins vegar inn fyrir landamæri Þýskalands eins og þau eru í dag eða voru hraktir þangað.

Samþykkt samtakanna kveður ennfremur á um viðurkenningu á meðábyrgð á ofsóknum og morðum á Súdeta-Þjóðverjum og Tékkum sem nasistastjórnin hafði illan bifur á sem og á helför gyðinga sem bjuggu í héruðunum Bóhemíu, Móravíu og Slésíu.

Haft er eftir Bernd Posselt, talsmanni samtakanna, að hann væri ánægður með að tillaga sem hann hefði flutt árum sama hefði loks verið samþykkt. Það væri mikilvægt skref í bættum samskiptum Þýskalands og Tékklands. 

Utanríkisráðherra Tékklands, Lubomir Zaoralek, fagnaði ákvörðun samtakanna í kjölfarið og tók í sama streng.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert