Fornleifafræðingar í Argentínu telja sig hafa fundið leynistað sem þýskir nasistar hafi komið á laggirnar í frumskógum landsins. Tilgangurinn með honum hafi væntanlega verið sá að háttsettir nasistar gætu farið þar huldu höfði ef Þýskaland tapaði síðari heimsstyrjöldinni.
Fram kemur í frétt AFP að um sé að ræða rústir þriggja bygginga í Teyu Cuare-þjóðgarðinum í norðurhluta Argentínu skammt frá landsmærunum að Paragvæ. Fundist hafa meðal annars þýsk mynt á staðnum sem slegin var á árunum 1938-1941 og brot úr postulínsdiski sem framleiddur var í Þýskalandi.
Vitað er að þýskir nasistar höfðu ýmis áform uppi um að koma leiðtogum sínum undan ef stríðið færi illa fyrir þá. Ekkert bendir hins vegar til þess að umræddur leynistaður hafi verið notaður í þeim tilgangi. Fjöldi nasistaforingja flýði engu að síður til Argentínu eftir stríðið með samþykki þáverandi einræðisherra landsins, Juans Peron.