Tsarnaev við það að vera rekinn úr skóla

Dzhokhar Tsarnaev
Dzhokhar Tsarnaev AFP

Dzhokhar Tsarnaev, sem grunaður er um að bera ábyrgð á sprengjuárásum við marklínu maraþonsins í Boston í apríl 2013, var við það að vera rekinn úr háskóla og hafði misst fjárhagsstyrk sinn, er ódæðin voru framin. Vararektor University of Massachussetss, þar sem Tsarnaev var við nám, Mark Preble, bar vitni við réttarhöldin yfir Tsarnaev í gær. Sýndi hann m.a. einkunnaspjald Tsarnaev sem átti enn eftir að velja sér aðalfag. Er Tsarnaev fæddur sumarið 1993 og var hann því tæplega tvítugur þegar að sprengjuárásin varð. 

Á einkunnarspjaldinu mátti sjá sjö einkunnir sem allar voru bókstafurinn F. Er það lægsta einkunnin í einkunnarkerfi háskólans sem þýðir að Tsarnaev féll í öllum fögunum. 

Á síðustu önn hans, vorönn 2013, var Tsarnaev skráður m.a. í áfanga í bandarískum stjórnmálum, almennri sálfræði og takmarkaðri stærðfræði. Sagt er frá þessu á vef Time og haft eftir Boston Globe. 

Kemur þar fram að lélegur árangur Tsarnaev hafi orðið til þess að skólastyrkur hans var afturkallaður. Í janúar 2013 fyllti Tsarnaev út skýrslu til þess að útskýra slæmar einkunnir sínar til þess að reyna að fá styrkinn til baka. 

„Síðasta árið missti ég of marga af ástkærum ættingjum mínum,“ skrifaði Tsarnaev í skýrslunni. „Ég þoldi ekki álagið og gat ekki staðið mig í skólanum. Ættingjar mínir búa í Tsjetsjeníu í Rússlandi. Það er lýðveldi sem rússneskir hermenn hertóku og ræna saklausum mönnum og segja þá hryðjuverkamenn. Ég er nú á tímapunkti þar sem ég get loksins einbeitt mér að skólanum. Ég vil standa mig vel svo að einn daginn geti ég hjálpað þeim sem þurfa hjálp í landi mínu, sérstaklega fjölskyldumeðlimum.“

Fimm létust í sprengjuárásinni en 280 særðust. Ts­ara­nev er grunaður er um að bera ábyrgð á árás­inni ásamt bróður sín­um, en hann lést í átökum við lögreglu nokkrum dögum eftir árásina. 

Verj­andi Tsaranev hefur viðurkennt að skjól­stæðing­ur henn­ar tengd­ist árás­inni en lýsti hon­um sem fylgd­ar­sveini eldri bróður síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert