Frjáls í dag eftir 30 ára fangelsi

Anthony Ray Hinton er látinn frjáls í dag eftir 30 …
Anthony Ray Hinton er látinn frjáls í dag eftir 30 ára fangelsi.

Eftir að hafa setið á dauðadeild Alabamafylkis í þrjátíu ár mun Anthony Ray Hinton ganga út í dag sem frjáls maður. Úrskurðaði dómari að hann skyldi látinn laus eftir að ríkið hafði hætt við að ákæra hann.

„Við erum í skýjunum með að Hinton fái loksins látinn laus þar sem hann hefur án nokkurrar ástæðu eytt ótalmörgum árum á dauðadeild Alabama, á meðan gögn sem sanna sakleysi hans hafa legið skýr fyrir,“ segir lögmaðurinn Bryan Stevenson, en hann vinnur hjá stofnuninni Equal Justice Initiative, sem vinnur að frelsun saklausra fanga af dauðadeildum Bandaríkjanna.

„Ítrekaðar neitanir ríkissaksóknara síðustu ár um að endurskoða málið, þrátt fyrir sannfærandi og skýr sönnunargögn um sakleysi mannsins, hafa svikið vonir okkar og vekja hjá okkur miklar áhyggjur af stöðu annarra fanga.“

Fundinn sekur árið 1985

Hinton er á meðal þeirra sem lengst hafa setið á dauðadeild fylkisins. Var hann fundinn sekur árið 1985 um tvö morð sem áttu sér stað á því ári. Ný réttarhöld voru boðuð á síðasta ári vegna vitnisburðar skotvopnasérfræðinga frá árinu 2002, sem sannaði að Hinton gat ekki hafa myrt fórnarlömbin. Var hann 29 ára á þeim tíma og hefur allar götur síðan haldið fram sakleysi sínu.

„Kynþáttur hans, fátækt, ófullnægjandi lögfræðiaðstoð og tómlæti saksóknara gagnvart sakleysi hans. Allt lagðist þetta á eitt til að skapa skólabókardæmi um óréttlæti,“ segir Stevenson um Hinton, sem er svartur á hörund. „Ég get ekki hugsað mér neitt annað mál sem sýnir jafn knýjandi fram á þær nauðsynlegu endurbætur sem þurfa að eiga sér stað í bandarísku réttarkerfi.“

Sjá ítarlega umfjöllun mbl.is: Tæplega 20 þúsund á dauðadeildum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert