Gagnrýna skotgleði í kjölfar árásar

Talið er að bræðurnir hafi haft þessa skammbyssu í fórum …
Talið er að bræðurnir hafi haft þessa skammbyssu í fórum sínum þegar þeir flúðu lögreglu. AFP

Í opinberri skýrslu um eftirmála sprengjuárásarinnar í Boston-maraþoninu 2013, segir m.a. að lögreglu hafi skort „vopnaaga“ þegar eftirför og leit stóð yfir af bræðrunum tveimur sem stóðu að árásinni, Tamerlan og Dzhokhar Tsarnaev.

Samkvæmt skýrslunni hleypti lögregla af fleiri en 200 skotum 19. apríl, í skotbardaga sem varð Tamerlan að aldurtila. Þar segir að lögregluþjónar hafi hleypt af vopnum sínum án þess að hafa endilega borið kennsl á og haft skotmarkið í augnsýn, eða miðað vopnum sínum á viðeigandi hátt.

Þá var einnig skotið á svartan pallbíl, sem hafði verið tilkynntur stolinn fyrir mistök.

Seinna, eftir að lögreglu barst ábending þess efnis að yngri bróðirinn, Dzhokhar, lægi í felum í bát, hleypti lögreglumaður af án þess að hafa til þess heimild, þegar hann varð hreyfingar var. Það varð til þess að margir aðrir lögreglumenn skutu á bátinn, í þeirri trú að hinn grunaði hefði skotið í átt að þeim.

Það er niðurstaða skýrslunnar að með kúlnahríðinni hafi skapast veruleg hætta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert