Dauðarefsing yfirvofandi

Dzhokhar Tsarnaev.
Dzhokhar Tsarnaev. AFP

Allar líkur eru taldar á að Dzhokhar Tsarnaev hljóti dauðarefsingu eftir að kviðdómur dæmdi hann sekan í dag. Tsarnaev á ásamt bróður sínum að hafa sprengt sprengjur í marki Boston-maraþonsins árið 2013 þegar þrír létust og 264 særðust. Þar af misstu 17 manns útlimi í sprengingunni.

Kviðdómurinn var skipaður 12 dómendum og var ákvörðun þeirra einróma. Ákæran gegn honum var í 30 ákæruliðum og var hann fundinn sekur í þeim öllum. Eftir að hafa sprengt sprengjuna flúði hann ásamt bróður sínum og við tók eltingaleikur við lögregluna sem lauk með því að bróðir hans var skotinn til bana. Tsarnaev fannst að lokum í felum í yfirgefnum báti þar sem hann hafði skrifað með blóði skilaboð. Þar réttlætti hann árásina með því að vísa í hernaðarþátttöku Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan.

Í næstu viku hefjast ný réttarhöld þar sem sami kviðdómur mun taka ákvörðun um refsingu.

Tsarnaev er sagður hafa verið fölur í dómssalnum í dag í fylgd lögmanna sinna, klæddur í bláa peysu og dökkan jakka. Nokkrir aðstandendur hinna látinna voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna. 17 ákæruliðir af 30 geta leitt til dauðarefsingar og líklegt að hann geri sér vel grein fyrir mögulegum örlögum sínum, því ef hann fær ekki dauðarefsingu þykir öruggt að hann fái lífstíðarfangelsi. Verjandi Tsarnaevs sagði í ræðu sinni að hann hafi viðurkennt að hafa tekið þátt í árásinni en að hann hafi ekki staðið að skipulagningu, heldur væri hann verið plataður til þess að taka þátt.

Tsarnaev er innflytjandi af tsjetsjenskum uppruna sem fékk bandarískt ríkisfang árið 2012. Hann var nemandi við háskólann Dartmouth, Massachusetts. 

Enginn tekinn af lífi í 68 ár

Dauðarefsing hefur ekki verið framkvæmd í Massachusetts frá árinu 1947 og hafa rómansk-kaþólskir biskupar andmælt dauðarefsingu í dag eftir að hann var fundinn sekur. 

Ákæruvaldið eyddi fjórum vikum í málflutning sinn og kölluðu til 92 vitni sem töluðu alls í 15 daga. Var markmið þeirra að sýna fram á að Tsarnaev hafi verið ásamt bróður sínum, róttækur andstæðingur Bandaríkjanna. „Hann vildi fremja hryðjuverk gegn þessu ríki og hann vildi refsa bandarískum borgurum fyrir það sem Bandaríkin gera á erlendri grundu,“ sagði saksóknarinn í lokaræðu sinni á mánudag.

„Þeim bræðrum leið eins og hermönnum sem væru að fara í orrustu í Boston,“ bætti hann við og gerði að umtalsefni sínu eiturlyfjanotkun Tsarnaevs, auk slæms námsárangurs hans í skólanum. Þá fundu rannsakendur í tölvu hans fjölda íslamskra rita og benti saksóknari einnig á þá staðreynd.

Réttarhöldin einkenndust af myndböndum frá sprengingunni með tilheyrandi angistarópum og öskrum. Segir saksóknari að Tsarnaev hafi viljað hefna fyrir múslíma hinum megin Atlantshafið og að þeir bræður hafi lært að útbúa sprengju í tímaritinu Inspire, sem gefið er út af Al-Qaeda á ensku.

Vildi saksóknari einnig sýna fram á hversu kaldrifjaður Tsarnaev var. Eftir að hafa sprengt sprengjuna fór hann út í búð, keypti sér mjólk og setti inn uppfærslu á Twitter þar sem hann sagðist vera „áhyggjulaus týpa.“

Verjandi Tsarnaev tók þann pól í hæðina að pilturinn hafi verið neyddur til að taka þátt í árásinni af eldri bróður sínum, og að ekki hefði komið til árásarinnar ef það hefði ekki verið fyrir hann.

„Það er engin afsökun fyrir þeirri kvöl sem fólkið þurfti að upplifa, eða þeim söknuði sem nú er til staðar. Enginn er að reyna að afsaka neitt,“ sagði verjandinn, Judy Clarke.

„Tamerlan [bróðir Dzhokhar] myrti lögreglumann á flótta, sótti leiðbeiningarnar til að útbúa sprengjuna, útvegaði efnið sem þurfti og hans fingraför voru á öllum sprengjunum,“ sagði Clarke í síðustu ræðu sinni.

Verjendur Tsarnaevs.
Verjendur Tsarnaevs. AFP
Fjölmiðlamenn fjölmenntu þegar réttarhöld yfir Dzhokhar Tsarnaev hófust fyrir rúmlega …
Fjölmiðlamenn fjölmenntu þegar réttarhöld yfir Dzhokhar Tsarnaev hófust fyrir rúmlega mánuði síðan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert