Nauðgaði og neyddi stúlkur í fóstureyðingu

Moses Kipsiro, ólympíufari og heimsmeistari í maraþoni, segist íhuga að …
Moses Kipsiro, ólympíufari og heimsmeistari í maraþoni, segist íhuga að flýja Úganda vegna morðhótanna. Hann hefur sagt opinberlega frá brotum þjálfarans. AFP

Lögreglan í Úganda hefur handtekið íþróttaþjálfara sem grunaður er um að hafa nauðgað að minnsta kosti þremur táningsstúlkum sem hann þjálfaði. Stúlkurnar æfðu hlaup hjá manninum.

Hlaupafólk frá Úganda hefur náð góðum árangri í íþrótt sinni að undanförnu en hingað til hafa Kenía og Eþíópía haft yfirburði í greininni í Austur-Afríku. 

Ein skærasta stjarna Úganda í langhlaupum, Moses Kipsiro sagði frá meintum brotum þjálfarans á síðasta ári. Hann sagði að konurnar sökuðu þjálfara sinn, Peter Wemali, um að hafa brotið gegn sér. Wemali er einnig yfirþjálfari í lögregluskóla í austurhluta Úganda.

Wemali var handtekinn í gær. Stúlkurnar sem hann er sagður hafa brotið gegn voru 15-17 ára gamlar er brotin voru framin á árunum 2013-2014. Í úgandska dagblaðinu Daily Monitor segir að hann hafi verið handtekinn eftir að stúlkurnar hefðu farið í læknisskoðun.

Á síðasta ári sögðu stúlkur í unglingalandsliði Úganda frá því að Wemali hefði áreitt þær kynferðislega í þjálfunarbúðum. Þær sögðu að hann hefði ráðlagt þeim að verða óléttar og láta svo eyða fóstrinu til að ná betri árangri í langhlaupi.

Wemali hefur einnig verið sakaður um að leggja stund á galdra. Hann var ekki ákærður í því máli. Íþróttasamband Úganda hefur verið sakað um að reyna að hylma yfir með Wemali og þagga málið niður. Nokkrar þingkonur sögðu á þingi í síðasta mánuði að málið væri „þjóðarskömm“ og kröfðust rannsóknar.

Lögreglustjóri í Sipi-héraði segir að nú sé leitað að ungri stúlku sem grunur leikur á að Wemali hafi barnað og neytt til að fara í fóstureyðingu.

Fyrr í vikunni sagði Stephen Kiprotich, ólympíufari og heimsmeistari í maraþonhlaupi, að Wemali væri „slæmur maður“ sem hefði eyðilagt feril að minnsta kosti einnar efnilegrar hlaupakonu og gert aðra að eiginkonu sinni.

Kipsiro hefur einnig sagt að hugsanlega neyðist hann til að flýja Úganda eftir að hafa borist morðhótanir fyrir að tjá sig opinberlega um mál þjálfarans.

Lögreglan í Úganda hefur handtekið þjálfarann. Hann er grunaður um …
Lögreglan í Úganda hefur handtekið þjálfarann. Hann er grunaður um að minnsta kosti þrjár nauðganir og að hafa barnað stúlkur og þvingað þær í fóstureyðingu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert