Tíundaði kosningaloforð íhaldsmanna

„Við getum gert Bretland að stað þar sem allir eiga möguleika á góðu lífi sem eru reiðubúnir að vinna og standa rétt að málum,“ sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í dag þegar hann flutti ávarp fyrir framan Downingstræti 10. Skömmu áður hafði hann gengið á fund Elísabetar drottningar og fengið umboð til þess að mynda nýja ríkisstjórn eftir að ljóst varð að flokkur hans, Íhaldsflokkurinn, hefði fengið meirirhluta þingsæta í bresku þingkosningunum sem fram fóru í gær.

Cameron sagði að stefnuskrá Íhaldsflokksins væri stefnuskrá vinnandi fólks. Með meirihluta í þinginu gæti ný ríkisstjórn flokksins framkvæmt allt sem þar kæmi fram. Enda væri meirihlutastjórn eins flokks að hans mati ábyrgari gagnvart kjósendum. Lagði hann áherslu á aukið framboð iðnáms í Bretlandi, aukna dagvistun barna og auknar ráðstöfunartekjur almennings með lækkun skatta. Milljónir nýrra starfa yrðu til og mikill fjöldi húsnæðis byggt sem venjulegt fólk hefði efni á.

Þjóðaratkvæði fer fram um veruna í ESB

Forsætisráðherrann sagði ennfremur að þjóðaratkvæði um veru Bretlands í Evrópusambandinu færi fram eins og heitið hefði verið og Skotland fengi stóraukið vald yfir eigin málum. Þar á meðal varðandi skattheimtu. Sama yrði raunin með aðra hluta breska konungdæmisins, England, Wales og Norður-Írland. Ný ríkisstjórn myndi leggja áherslu á að sameina landið og tryggja að árangurinn af betri stöðu í bresku efnahagslífi skilaði sér til allra landshluta.

„Þetta snýst um að veita öllum landsmönnum tækifæri þannig að sama hvaðan fólk kemur hafi það möguleika á að ná sem mestum árangri,“ sagði Cameron. Meðal annars að þeir tekjulægstu hefðu möguleika á menntun, störfum og framtíðarvon. Framtíðin fæli í sér mikil tækifæri fyrir Bretland. Saman gætu Bretar tryggt landinu, sem ætti sér glæsta sögu, glæsta framtíð. „Í sameiningu getum við gert Stóra-Bretland enn stærra.“

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/EyEMw-P7Ie8" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert