Segir Tsarnaev iðrast gerða sinna

Dzhokhar Tsarnaev.
Dzhokhar Tsarnaev. AFP

Dzhokhar Tsarnaev, sem stóð ásamt bróður sínum að sprengjuárásinni á Boston-maraþonið árið 2013 þar sem þrír létu lífið og mikill fjöldi annarra særðist, hefur sýnt iðrun vegna gerða sinna. Þetta fullyrðir bandaríska nunnan Helen Prejean.

Tsarnaev var fundinn sekur í síðasta mánuði og á yfir höfði sér dauðarefsingu. Prejean bar vitni fyrir dómstólnum í dag þar sem tekist er á um það hvort dæma eigi hann til dauða, en hún er þekktur andstæðingur dauðarefsingar þar í landi. Sagðist hún hafa hitt Tsarnaev fimm sinnum síðan í mars og að hún teldi að hann hafi verið einlægur í samtölum þeirra.

Þannig hafi Tsarnaev sagt að enginn ætti skilið að deyja eins og þeir sem létu lífið í sprengjuárásinni. Prejean sagðist hafa greint sársauka í orðum hans þegar hann talaði um afleiðingar gerða sinna. „Ég er fullviss um að hann var raunverulega miður sín yfir því sem hann gerði,“ sagði hún í réttarsalnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert