Telur að Grikkir kunni að yfirgefa evruna

Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. AFP

Forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Largarde, útilokar ekki lengur að til þess kunni að koma að Grikkland yfirgefi evrusvæðið. Hún segir í samtali við þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung í dag að það væri möguleiki en bætti við að enginn vildi þó sjá það gerast. Grikkir væru þó nær því að segja skilið við evruna en nokkurn tímann áður.

„Það er mjög ólíklegt að samkomulag um lausn náist á næstu dögum,“ er haft eftir Largarde á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Dregið hefði úr bjartsýninni sem hefði verið ríkjandi í þeim efnum að undanförnu. Hún bætir því við að náist ekki samkomulag yrði það ekki góð niðurstaða fyrir evrusvæðið en markaði þó ólíklega endalok evrunnar. Evrópski seðlabankinn varaði við því nýverið að líkurnar á greiðsluþroti Grikklands hefðu aukist mjög.

Grísk stjórnvöld hafa varað við því að þau sjái ekki fram á að geta staðið við greiðslu á 300 milljónum evra til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 5. júní komi ekki til frekari fyrirgreiðslu frá alþjóðlegum lánadrottnum Grikklands. Það er AGS og Evrópusambandinu. Þeir hafa hins vegar sett samkomulag um skuldir landsins sem skilyrði fyrir frekari fyrirgreiðslu.

Largarde hefur áður lagt ríka áherslu á að annað komi ekki til greina en samkomulag sem uppfylli allar kröfur AGS. Hún hefur gefið í skyn að sjóðurinn sé reiðubúinn að hætta þátttöku í viðræðunum við Grikki ef þær skila ekki árangri. Það þýddi að Evrópusambandið yrði að standa alfarið undir mögulegri frekari fyrirgreiðslu til Grikklands. Nokkuð sem Þjóðverjar hafa hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert