Miklar breytingar nauðsynlegar

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Takist David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ekki að semja um grundvallarbreytingar á veru landsins í Evrópusambandinu ætti hann að beita sér fyrir því að Bretar gangi úr sambandinu. Þetta er niðurstaða viðamikillar skýrslu sem kynnt var í dag.

Fjallað er um skýrsluna á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en hún er afrakstur samstarfs hagfræðinga og þungavigtarmanna í bresku viðskiptalífi. Fram kemur í fréttinni að um sé að ræða ítarlegustu rannsókn á veru Bretlands í Evrópusambandinu og þá möguleika sem landinu standi til boða gangi það úr sambandinu sem gerð hafi verið til þessa. Skýrslan þykir ekki síst áhugaverð í ljósi fullyrðinga um að Bretland þurfi að vera áfram í Evrópusambandinu þar sem það þjóni hagsmunum bresks atvinnulífs. Skýrslan gengur þvert á það sjónarmið.

Cameron hefur boðað þjóðaratkvæði um veru Bretlands í Evrópusambandinu fyrir árslok 2017 en Íhaldsflokkur hans vann sigur í þingkosningunum sem fram fóru í landinu síðasta vor. Cameron hyggst endursemja um veru landsins í sambandinu og að því loknu bjóða kjósendum að velja á milli þess að ganga úr því eða vera þar áfram innanborðs með breyttum skilmálum.

Hagsmunum annars betur borgið utan ESB

Fram kemur í skýrslunni, sem telur um eitt þúsund blaðsíður og talin er eiga eftir að gegna lykilhlutverki í þeirri umræðu sem framundan er í Bretlandi, að Cameron þurfi að ná fram tíu atriðum í viðræðum við Evrópusambandið eigi að vera viðunandi að landið verði áfram innan sambandsins. Að öðrum kosti sé bæði hagsmunum breskra fyrirtækja og heimila betur borgið utan þess.

Þannig þurfi að tryggja að Bretland fái neitunarvald gagnvart löggjöf frá Evrópusambandinu, endurheimti völd yfir atvinnumálum sínum og verja þurfi breskt fjármálalíf með varanlegum hætti gegn regluverki sambandsins. Ennfremur er lögð áhersla á að Bretland verði undanþegið markmiði Evrópusambandsins um sífellt aukinn samruna ríkja þess. Þá þurfi að tryggja að fyrirtæki sem ekki selji vörur til sambandsins þurfi ekki að fara að reglum þess.

Tollabandalag en ekki fríverslunarsvæði

Samkvæmt skýrslunni er langur vegur frá því að veran í Evrópusambandinu hafi skilað þeim árangri fyrir neytendur og fyrirtæki í Bretlandi sem sameiginlegur markaður ætti að gera. Eftir 40 ára veru í Evrópusambandinu flytji aðeins 5% breskra fyrirtækja vörur með beinum hætti til annarra ríkja sambandsins en eftir sem áður þurfi öll bresk fyrirtæki að fara að íþyngjandi löggjöf þess.

Þá er meðal annars lögð áhersla á að Evrópusambandið sé ekki fríverslunarsvæði heldur tollabandalag sem hafi tekist einstaklega illa upp við að ná viðskiptasamningum við vaxandi efnahagsveldi eins og Kína. Ein af forsendum þess að hagsmunum Breta væri borgið innan sambandsins væri sú að aukin áhersla yrði lögð á gerð fríverslunarsamninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert