Ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Grikklandi verður „nei“ mun það ekki styrkja stöðu landsins í viðræðum við alþjóðlega lánardrottna eins og ríkisstjórnin hefur haldið fram. Þetta segir Valdis Dombrovskis, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
„Það væri rangt að halda því fram að „nei“ myndi styrkja samningsstöðu Grikkja. Hið gagnstæða er rétt,“ sagði Dombrovskis, sem er fyrrverandi forsætisráðherra Lettlands, í viðtali við þýska dagblaðið Die Welt í dag.
Þar sagði hann jafnframt að staða Grikklands væri mun verri en hún var fyrir viku, í kjölfar ákvörðunar Alexis Tsipras, forsætisráðherra landsins, um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Grikkir ættu að samþykkja lánaskilmála Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Dombrovskis hefur áður sagst vera „viss um að efnahags- og myntbandalag Evrópusambandsins komist klakklaust í gegnum þetta“ og kveðst telja að samkomulag náist við Grikki fyrir 20. júlí þegar þeir eiga að greiða næstu afborgun af láni frá Evrópusambandinu. Þá á Grikkland að greiða Evrópska seðlabankanum 3,46 milljarða evra (550 milljarða króna).
Þá sagði Tsipras í samtali við breska ríkisútvarpið í gær að „100 prósent líkur“ væru á því að samkomulag næðist við alþjóðlega lánardrottna ríkisins eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á sunnudag. Hann hefur þó gefið í skyn að hann muni mögulega segja af sér ef niðurstaða kosninganna verður „já“ en hefur einnig sagt að hann vilji framfylgja vilja þjóðarinnar, jafnvel þótt hann gangi gegn því sem ráðherrann hefur barist fyrir.
Skoðanakannanir hafa ekki gefið afdráttarlausa vísbendingu um úrslitin en ein könnun sem lekið var í dag benti til þess að 44,8% hygðust kjósa já en 43,4% nei. Gera má því ráð fyrir jöfnum slag, og hefur þegar verið efnt til kosningavöku hjá báðum pólum.
Grikkland varð á þriðjudag fyrsta þróaða ríkið sem stendur ekki skil á skuldbindingum sínum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), þegar ríkissjóður Grikklands greiddi ekki einn og hálfan milljarð evra, sem Grikkland átti að greiða.
Í síðustu viku slitnaði upp úr samningaviðræðum grískra stjórnvalda við lánardrottnana eftir útspil Tsipras, sem ákvað að boða til þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Í kjölfarið fóru að myndast biðraðir við gríska hraðbanka og hafa margir milljarðar evra verið teknir út úr hraðbönkum og bönkum í landinu á undanförnum vikum.
Þá ákvað ríkisstjórn Grikklands að bankar þar í landi yrðu lokaðir alla vikuna, sem liður í aðgerðum til þess að koma í veg fyrir endanlegt hrun í gríska efnahagskerfinu. Ákvörðunin kom í kjölfar þess að bankaráð Evrópska seðlabankans tilkynnti um helgina að neyðarlausafjáraðstoð, sem grísku bankarnir hafa reitt sig á til að halda sér á floti, yrði haldið óbreyttri en ekki aukin. Óvissan olli einnig greiðslufalli.
Þá hafa fjármálaráðherrar evruríkjanna gefið út að frekari viðræður um skuldavanda Grikklands muni ekki fara fram fyrr en að afstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslunni.